Hvar varst þú þegar….

Standard

Flestir muna eflaust eftir því hvar þeir voru þegar þeir heyrðu að flugvélum hefði verið flogið á tvíburaturnana. Ég var staddur í Versló, þegar samnemandi minn kom hlaupandi og tilkynnti okkur hvað hefði gerst. Við þurstum öll niður í nemendakjallara og fylgdumst með atburðarásinni á 28 tommu túbusjónvarpi. Bein útsending á Rúv, sem hafði fengið leyfi til þess að birta upptökur frá CNN.

En eftir því sem tækninni fleytir fram þá breytist sendiboðinn, verður ómerkilegri og í fyrradag gerðist hið óumflýjanlega. Þegar ég vissi fyrst af ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins í gegnum  snapchat (#guffiguffi).

Screenshot_20170111-095027

Þessi myndatexti á hins vegar erindi við okkur öll. Það á enginn aldrei að stilla sér svona upp. Þetta lærði ég á Hrafnistu, þar sem má með sanni segja að ungur nemur gamall temur.

Nei, tími dramatískra innkoma og ,,við rjúfum dagskrá….” er líklega liðinn. Í dag hlustum við á samferðafólk okkar endursegja fréttir sem við höfum löngu heyrt og löngu lesið.  Reynum að virka áhugasöm, eins og útvarpsmaður sem hlustar á fréttamann fara yfir helstu fréttir dagsins, en hefur heyrt þetta á hálftíma fresti alla vaktina. Ætli þessi tíst kenning Bergsteins Sigurðssonar nái ekki ágætlega utan um þetta.

tíst

Þessi sítenging hefur gert það að verkum að við vitum alveg rosalega lítið um alveg rosalega mikið og allt saman í rauntíma. Að kafa dýpra krefst þess að við höldum stafrænt í okkur andanum lengur en flest okkar virðumst hafa þolinmæði til. Þetta auðvelda aðgengi að stöðugu upplýsingaflóði hefur samt auðvitað sínar jákvæðar hliðar.  En það getur líka þýtt þetta.

image001 (2)

Sem skilur eftir eina spurningu ósvarað; hvar varst þú þegar þú last þetta?

Föstudagsfróðleikur – Vertu ekki að plata mig

Standard

Um jólin sagði Ísi mér frá því að hann hefði farið á jólatónleika Baggalúts í Háskólabíó. Eftir tónleikana hefði hópurinn sem hann var í farið yfir á Mánabar og fengið sér einn drykk. Ísi ruglaðist hins vegar. Hann var ekki á Mánabar heldur á Mímisbar á Hótel Sögu. En þá fórum við að hugsa, hvar var Mánabar?

Ég sá hana á horninu á Mánabar, 
Hún minnti mig á Brendu Lee, 
Ég skellti krónu í djúkboxið og hækkaði vel í því. 

Þessar ljóðlínur söng Björgvin Halldórsson í laginu Vertu ekki að plata mig. Og við þurfum ekki meira. Þarna er allt sem þarf til þess að staðsetja okkur í stað og tíma.

Brenda May Tarpley eða Brenda Lee var vinsæl popp/rokkabilly/country söngkona, sem gaf út sína stærstu hittara á árunum 1958 til 1960 (þá 16 ára gömul). Hér er hún árið 1965, þá 21 árs.

Samkvæmt Önundi Páli Ragnarssyni, hagfræðingi á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands væri 1 króna árið 1960 jafnvirði 2.900 – 3.600 króna í dag. Hér verður hins vegar einnig að leiðrétta fyrir myntbreytingunni árið 1980, þegar tvö núll voru klippt af, svo eitt lag í júkboxinu væri að komsta einhverja 30-40 krónur í dag, sem er auðvitað nær lagi, en líklega of ódýrt. En við gefum höfundi texta ákveðinn afslátt, enda hefði verið flókið að syngja ég skellti fjórum krónum í júkboxið og hækkaði vel í því.

#önundurpállragnarssonhagfræðinguráfjármálastöðugleikasviðiseðlabankaíslands.

Hafnfirðingurinn Björgvin Halldórsson er fæddur árið 1951. Og textinn á líklega að fjalla ca. um unglingsárin hans. Ef við segjum svona upp úr 16 ára, þá erum við stödd ca. árið 1967, þegar Brenda Lee er 23 ára. Þetta gengur allt saman ágætlega upp.

Og Mánabar? Hann var þar sem núna er Súfistinn í Hafnarfirði.

BÆNG!

Gleðibankinn

Standard

Á fimmtudaginn fyrir viku síðan hringdi síminn og á hinni línunni var fulltrúi frá markaðsdeils bankans.  Erindið var að biðja mig um að skrifa pistil í innanhússnepil sem sendur var út í tengslum við starfsdag bankans. Gefin voru hin hóflegu tímamörk sólarhringur til þess að skila.

Þú getur til dæmis skrifað um liðsheildina var ein af hugmyndunum sem markaðsdeildin velti upp.

Eftir klukkutíma umhugsun hafði ég aftur samband og sagðist myndi gera þetta. En að ég myndi ekki skrifa um liðsheild, heldur 30 ára afmæli Eurovision á Íslandi og þá staðreynd að það sé tímasetningin sem við ákveðum að hætta að nota tékkhefti. Hér er pistillinn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tíminn líður hratt á gervihnattaröld. Og í vor þegar þrjátíu ár eru liðin frá því að fyrsta íslenska Eurovision lagið hljómaði, þá er víst kominn tími til að leggja frá sér tékkheftið.

Ertu stundum hugsandi yfir öllum gulu miðunum var sungið og ég ímynda mér Eika Hauks að hengja enn einn gulan post it miða upp á spegil hjá sér. Þessi á að minna hann á tíma hjá tannlækni í næstu viku.

Þrjátíu árum síðar kemst ég óvænt að sannleikanum, án þess að hafa þó verið að leita hans. Mér líður svipað og þegar ég horfði aftur á Forrest Gump og skyldi þá loksins af hverju Forrest þurfti ekki lengur af hafa áhyggjur af peningum af því að lt Dan hafði keypt hlut í einhverju eplafyrirtæki. Hvernig átti ég eiginlega að vita að gulu miðarnir væru FIT miðar?

Ekkert frekar en unglingurinn sem afgreiddi mig í bakaríinu á Ísafirði vissi ekki hvað súperdós var (ha, súpu dós?) Guð minn góður Guð finnur góður, það er þá komið að því.

,,Þegar ég var á þínum aldri…“ hlustaði ég á sjálfan mig segja við unglinginn í bakaríinu og fór út úr líkamanum og horfði á sjálfan mig úr fjarlægð segja þessi orð í fyrsta skiptið. Ég vissi ekki hvað gulu miðarnir voru og hann ekki hvað súperdós er. Þetta er allt partur af Circle of life. NAAAAA ZVEGNAAAAAAA!!

Þú tekur kannski of mikið út úr Gleðibankanum. Það fylgist nefnilega ekkert alltaf að. Að eiga nóg af blöðum eftir í tékkheftinu og pening inn á bókinni. Í gamla tékkaheiminum var víst talað um að gúmma stórt. Það þýddi að ef menn ætluðu á annað borð að fara yfir á reikningnum, þá væri allt eins gott að gera það bara almennilega. Guli miðinn var alltaf sá sami.

Það tók undirritaðan þrjár heimsóknir í útibú til þess að fá tékkhefti. Fyrst endaði ég hjá sumarstarfsmanni sem benti á að ég gæti ekkert bara skrifað pening?!? Í næstu heimsókn bauðst ég góðfúslega til þess að koma bara síðar. Röðin á eftir mér var orðin ískyggilega löng og þrír starfsmenn fundu ekki eyðublaðið sem var líklega heima hjá Sigurjóni Gunnarssyni. En í dag er ég í fyrsta skiptið á ævinni stoltur eigandi tékkheftis úr útibúi 130 Hamraborg. Og geri samviskusamlega upp allar mínar skuldir með tvístrikaðri ávísun.

Til hamingju með afmælið Sigrún María. Ekki eyða þessu öllu í vitleysu.

Þú skalt syngja lítið lag um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér. Nú líður að páskum og ég er á leiðinni vestur. Unglingurinn í bakaríinu á svei mér þá von á góðu. Þegar ég bið um eina súpu dós og borga fyrir hana með pening sem ég skrifa sjálfur!

Ágæta markaðsdeild, ég veit ekki alveg með þennan pistil. Gætuð þið geymt hann fram yfir mánaðarmót?

Pútín

Standard

Stærsta fréttin í síðustu viku var líklega fréttin af kosningunum á Krímskaga, þar sem íbúar samþykktu nánast einróma að verða hluti af Rússlandi. Alþjóðasamfélagið mótmælti kosningunum harðlega og ein afleiðing þess var að Rússland var rekið úr hópi G8 ríkjanna, sem þar með urðu að G7 ríkjunum.

Forsögu G8, sem er hópur stærstu iðnríkja heims, má rekja aftur til ársins 1975 sem afleiðingu af olíukreppunni sem hófst tveimur árum áður með því samband arabískra olíuríkja ákváðu að hækka olíuverðið á heimsmarkaði umtalsvert. Þá voru ríkin reyndar 6, en var strax árið eftir fjölgað upp í 7 og svo aftur upp í 8 með innlimun Rússlands eftir að Kalda stríðinu lauk.

Einhvern tímann heyrði ég því reyndar fleygt fram að það hafi ráðið miklu af hverju ríkjunum var fjölgað og af hverju G8 eru orðin opnari fyrir iðnríkjum á hliðarlínunni (eins og Brasilíu, Kína  og Indlandi), að staða Bretlands á heimsvísu er ekki jafn sterk og áður og það væri orðið erfiðara að réttlæta veru þeirra í hópi stærstu ríkjanna. En ég sel það nú ekki dýrara en ég ,,ógúgglað” keypti það.

En brotthvarf Rússlands úr hópi G8 ríkjanna er ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að þar með er síðasti þjóðarleiðtoginn sem sæti átti við allsnægtarborðið framan á Live8 disknum mínum nefnilega horfinn af sjónarsviðinu. Tímarnir breytast og mennirnir með og núna er meira að segja komin ein kona.

Live8 tónleikarnir voru haldnir 20 árum eftir að upprunarlegu Live Aid tónleikarnir voru haldnir og á 11 mismunandi stöðum nánast samtímis sumarið 2005. Þeir voru líka tímasettir þannig að þeir hittu á sömu helgi og G8 leiðtogarnir hittust í Skotlandi. Tónleikarnir vöktu gríðarlega athygli og skilaboðin voru skýr. Og hvort sem það var bein eða óbein afleiðins af þeirri umræðu sem skapaðist í kringum tónleikana, þá varð niðurstaðan af G8 fundinum meðal annars sú að skuldir 18 fátækustu ríkja heims voru að miklu felldar niður og þróunarhjálp í Afríku var tvöfölduð frá árinu áður.

En nú eru sem sagt allir leiðtogarnir sem sátu þennan fund að mestu horfnir af hinu pólítíska sjónarsviði, nema Pútín auðvitað, sem lét sig þó hverfa til málamiðlunar eitt kjörtímabil og kom svo aftur til baka.

Hvort honum verði hleypt aftur inn fyrir 30 ára reunionið árið 2015 verður tíminn bara að leiða í ljós. Og hver veit, kannski verður Berlusconi þá aftur kominn að borðinu með honum. Það skyldi þó aldrei vera.

Gísli

Standard

Gísli á sunnudagsmorgnum er með ljósmynd af Reykjavík í settinu hjá sér og er gagnrýndur fyrir að vera sjaldan með viðmælendur utan höfuðborgarsvæðisins.

Gísli á sunnudagskvöldum hefur líklega ekki áhuga á því ef það gerist í póstnúmeri undir 300.

Allir sáttir á sunnudögum

Hreystikallið

Standard

Mottumars herferðin í ár kom eins og blaut tuska í andlitið á Esjumönnum. Okkur leið eins og við hefðum einir kóra ekki verið beðnir um að vera með. Hvernig mátti það eiginlega vera? Þetta var eins og vera einn heima á laugardagskvöldi og fylgjast með vinum pósta myndum úr afmælisveislu, sem þér einum var ekki boðið í.

Og fyrir mig sem formann kórsins var þetta mikið áfall. Mér fannst ég hafa brugðist hópnum og (í huganum) undirbjó afsögn mína og yfirlýsingu um formlegar ávítur á kórstjórann okkar.

En áfallið varði ekki lengi. Þrátt fyrir að Esjan væri í okkar huga alfa og ómega allra karlakóra og kynning okkar á láréttum söng sambærilegar mjaðmahreyfingum Elvis Presley á sínum tíma, þá var ekki framhjá því litið að aldur annarra kóra í myndbandinu var oftast nær talin í áratugum. Karlakórinn Heimir líklega þeirra elstur (starfað óslitið síðan 1927) og Bartónar sennilega yngstur (frá haustdögum 2010).

Á þeim tíma sem myndbandið var tekið upp var starfsaldur Esjunnar ennþá talinn í dögum. Já, líklega eru ennþá 2-3 Mottumarsar í að við verðum gjaldgengnir. Svo hjálpaði það nú óneitanlega til að kollegarnir í Fóstbræðrum og Karlakór Reykjavíkur voru báðir fjarri góðu gamni. Þó báðir þessir kórar geti nú huggað sig við það að hafa fengið að taka þátt í Skálmaldar verkefninu.

Eftir að hafa ákveðið að ekki væri ástæða að gráta Björn bónda mikið lengur, var það næsta í stöðunni  að berjast. Kári kórstjóri var dressaður upp í hlutverk Jakobs Frímanns og síðan var talið í….. Reyndar aðeins oftar en búist hafði verið við. Því eftir að upptökum var lokið, búið var að ganga frá búnaðinum og allir voru orðnir sáttir, kom í ljós að sérfræðingnum Esjunnar hafði láðst að ýta á rec.

Svo aftur var ákveðið að enginn ástæða væri að gráta Björn bónda, græjunum stillt upp aftur, upp með sixpensarann og berjast!

Og útkoman hin ágætasta.

Svo má nú segja að draumurinn hafi orðið að veruleika. Við erum komnir inn á heimasíðu Mottumars. 

 

 

I’m bringing planking back

Standard

Nei nei nei nei, haldið að hann sé ekki bara byrjaður aftur að blogga.

Enda er það bjargföst trú mín að bloggið hafi lognast út af allt of fljótt og það fyrir verri miðla. Fórnað fyrir 140 stafabila tíst eða stuttar, samanþjappaðar uppfærslur á Facebook sem einhvers staðar í lengdinni (eða styttingunni) tapa merkingunni.  Þar sem keppst er um nokkurra sekúndna athygli lesandans á meðan fréttaveitan á hægri hlið þýtur áfram og öskrar á að hætta þessu dóli og fara eitthvað annað. Hvað ert þú að gera hér? Við erum öll löngu farin(n) að pósta, póka og læka eitthvað allt annað, á meðan þú ert ennþá staddur einhvers staðar fyrir tíu mínútum síðan. Halló! 2013 var að hringja og vill fá Harlem Shakið sitt til baka.

Og engu er það skárra frá hinum endanum séð. Að henda út í kosmósinn hnyttinni og hnitmiðaðri færslu og vera algjörlega háður öðrum um að hún vaxi og dafni ört. Að færslan safni lofi og lol-i.
Allir vita að fyrstu tveir klukkutímarnir í lífi færslu skipta öllu. Eftir það getur þú nánast gleymt þessu, þetta er búið. Nú getur þú bara beðið og vonað að einhver grandlaus vinur þinn í fornleifagreftri rekist óvart í Like takkann, sem endurveki færsluna í fréttaveitunni. And they tell two friends, and they tell two friends.

Nei, þá er bloggið nú betra. Vertu velkomin(n) inn í rólegt og notalegt umhverfi þar sem engin(n) er að flýta sér. Hér verður vonandi skrifað nokkuð reglulega í framtíðinni. Á síðu sem fróðustu menn segja mér að aðlagi sig meira að segja að tölvum og símtækjum viðkomandi. Já, svona er hún nú framtíðin.

 

Fréttatíminn

Standard

Í Fréttatímanum um helgina var umfjöllun um teiknimyndapersónur sem væru hugsanlega með ADHD. Þeir tóku meðal annars nafna fyrir, án þess þó að vilja ganga svo langt að greina hann. Sem rímar ágætlega við það sem mamma hefur sagt, en hún grunnskólakennari til margra ára, hefur á stundum ýjað að því að ef ég væri að fæðast í dag myndi ég hugsanlega fá einhvers konar greiningu.

Líklega væri þó hægt að skipta um mynd, án þess að breyta textanum.

Virðing Alþingis

Standard

Allt tal þingmanna um að bæta vinnubrögðin á þingi er góðra gjalda vert. En fögrum orðum verða að fylgja markvissar aðgerðir. Það er óskandi að það hafist í þetta skiptið, það er dálítið núna eða aldrei.

Á föstudaginn síðastliðinn varð ég vitni að ótrúlegri birtingarmynd á þeirri óvirðingu sem Alþingi virðist búa við. Ég skrapp frá í hádeginu og þegar ég kom til baka labbaði ég Austurvallarmegin, frá Dómkirkjunni í átt að gamla Landssímahúsinu. Samsíða mér en hinum megin við götuna var maður, á að giska á milli fimtugs og sextugs. Hann var vel til hafður, snyrtilegur. Bara ósköp venjulegur kall að mér virtist.

Þegar hann kom að Alþingishúsinu sá hann að tveir þingmenn sátu inn í litlu fundarherbergi sem snýr út að Austurvelli. Hann fikraði sig nær þeim og byrjaði að veifa höndunum til að fanga athyglina þeirra. Þegar hann náði augnsambandi þá sendi hann þeim fingurinn með báðum höndum og hélt höndunum nokk lengi á lofti.

Ég gapti af undrum yfir því sem ég hafði orðið vitni af. Maðurinn hélt síðan bara ferð sinni áfram. Við skiptumst reyndar á mjög skrítnu augnsambandi eftir þetta, enda löbbuðum við nánast samsíða en sitthvorum megin við götuna. Hvorugum okkar virtist líða vel á þeirri stundu.

Eftir vinnu þennan sama dag ákvað ég að smella af einni mynd af litla fundarherberginu (ég er nú einu sinni að halda úti bloggsíðu). Þar sem ég stend og tek myndina heyri ég hróp og köll hinum megin við götuna. Sný mér við “bíp” sé hund að keyra bíl. Nei, bímm baramm búmm, önnur birtingarmynd virðingarleysis gagnvart löggjafanum.

….Þó grunar mig að þessi myndataka hafi annað hvort verið afleiðing af töpuðu veðmáli eða hugmynd af fyndinni færslu á Facebook.