Fréttatíminn

Standard

Í Fréttatímanum um helgina var umfjöllun um teiknimyndapersónur sem væru hugsanlega með ADHD. Þeir tóku meðal annars nafna fyrir, án þess þó að vilja ganga svo langt að greina hann. Sem rímar ágætlega við það sem mamma hefur sagt, en hún grunnskólakennari til margra ára, hefur á stundum ýjað að því að ef ég væri að fæðast í dag myndi ég hugsanlega fá einhvers konar greiningu.

Líklega væri þó hægt að skipta um mynd, án þess að breyta textanum.

Virðing Alþingis

Standard

Allt tal þingmanna um að bæta vinnubrögðin á þingi er góðra gjalda vert. En fögrum orðum verða að fylgja markvissar aðgerðir. Það er óskandi að það hafist í þetta skiptið, það er dálítið núna eða aldrei.

Á föstudaginn síðastliðinn varð ég vitni að ótrúlegri birtingarmynd á þeirri óvirðingu sem Alþingi virðist búa við. Ég skrapp frá í hádeginu og þegar ég kom til baka labbaði ég Austurvallarmegin, frá Dómkirkjunni í átt að gamla Landssímahúsinu. Samsíða mér en hinum megin við götuna var maður, á að giska á milli fimtugs og sextugs. Hann var vel til hafður, snyrtilegur. Bara ósköp venjulegur kall að mér virtist.

Þegar hann kom að Alþingishúsinu sá hann að tveir þingmenn sátu inn í litlu fundarherbergi sem snýr út að Austurvelli. Hann fikraði sig nær þeim og byrjaði að veifa höndunum til að fanga athyglina þeirra. Þegar hann náði augnsambandi þá sendi hann þeim fingurinn með báðum höndum og hélt höndunum nokk lengi á lofti.

Ég gapti af undrum yfir því sem ég hafði orðið vitni af. Maðurinn hélt síðan bara ferð sinni áfram. Við skiptumst reyndar á mjög skrítnu augnsambandi eftir þetta, enda löbbuðum við nánast samsíða en sitthvorum megin við götuna. Hvorugum okkar virtist líða vel á þeirri stundu.

Eftir vinnu þennan sama dag ákvað ég að smella af einni mynd af litla fundarherberginu (ég er nú einu sinni að halda úti bloggsíðu). Þar sem ég stend og tek myndina heyri ég hróp og köll hinum megin við götuna. Sný mér við “bíp” sé hund að keyra bíl. Nei, bímm baramm búmm, önnur birtingarmynd virðingarleysis gagnvart löggjafanum.

….Þó grunar mig að þessi myndataka hafi annað hvort verið afleiðing af töpuðu veðmáli eða hugmynd af fyndinni færslu á Facebook.

Kristín Sif

Standard

Kristín Sif litla frænka mín hélt upp á fjögurra ára afmælið sitt á fimmtudaginn síðastliðinn. Kóróna og söngur í leikskólanum, veisla fyrir vinina og fjölskylduna síðdegis en sú stutta höndlaði áreitið og þétta dagskránna eins og hetja. Það er nú ekkert lítið mál að verða fjögurra ára. Þetta var líka stór dagur í fjölskyldunni, hún hafði nefnilega lofað því að hætta með duddu á afmælisdaginn sinn. Sjáum samt til hvort að það gangi eftir.

Ég og Kristín Sif erum rosalega miklir vinir. Við mamma hennar erum systkinabörn, en samt svo miklu meira því mæður okkar eru tvíburar. Sem þýðir að við erum sem fjölskylda einu skrefi frá því að skiptast bara á húslyklum hjá hvort öðru, svo mikill er samgangurinn. Það reyndi þess vegna mikið á Sigrúnu systur, sem er nýflutt til Aarhus, að geta ekki verið í afmælinu. Hún er líka Guðmóðir Kristínar Sifjar, en þá er nú gott að ég sé Guðfinnur.

Kristín Sif fékk hefðbundinn harðan pakka í afmælisgjöf frá Guffa frænda. Að beiðni afmælisbarnsins var það glimmer naglalakk. En fyrir utan harðan pakka þá höfum við Sigrún María undanfarin fimm ár gefið þeim systrum, Kristínu Sif og Evu Margréti eldri systur hennar, gjafabréf á afmælisdögum. Þetta slær alltaf jafn mikið í gegn, en ég er ekki alveg viss um hvort þetta sé vinsælla hjá þeim systrum eða okkur systkinunum. Miða úrvalið í ár var svipað og undanfarin ár og ég leyfi mér að mæla með þessari hugmynd fyrir hugmyndasnauða ættingja á leið í barnaafmæli.

Kristín Sif er algjört draumabarn. Hún er hress og skemmtileg, brosmildur knúsari og alveg eldklár. Okkur frændsystkinunum þykir líka alveg afskaplega vænt um hvort annað og höfum reglulega gaman af því að leika okkur saman og gerum mikið af því.

Það var til dæmis í heimsókn með henni í Fjölskyldu og húsdýragarðinn, sem ég tók upp mjög svo umdeild fimmaura brandaramyndbönd. Sú stutta var fljót að læra brandarana hjá frænda sínum, enda átti hún eftir að heyra þá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á stuttum tíma. Samkynhneigðu hestarnir voru reyndar lengst af ,,samstæðir hestar” í hennar útgáfu, en það stóð ekki á svarinu þegar maður spurði hvað þeir borðuðu, og við skulum leyfa henni að eiga lokaorðin.

Guffi böggar fræga part II

Standard

Á mánudaginn var vikulegur fótbolti hjá B-liðinu. Mætingin var að stríða okkur svo Arnar 6 ára mætti með aukamann og eitthvað kannaðist ég nú við kauða. Gott ef hann var ekki leikari?

Svo ég Guffaði mig upp að honum enda þóttist ég eiga erindi;

Bíddu, varst þú ekki að gifta þig í sumar?
Jú.
Í Hallgrímskirkju?
Já.
Þá söng ég í brúðkaupinu þínu.

Í eyrum viðstaddra B-liðsmanna virkaði ég mjög vanur og kasjúal þegar ég sagði þetta. Það hljómaði dálítið eins og það að syngja í Hallgrímskirkju væri hversdagslegur hlutur, en þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef sungið í brúðkaupi. Orðaval og bragur bentu líka til þess að þarna hefði ég sungið einsöng með Monicu á hörpunni, þegar staðreyndin var þessi;

Þetta er reyndar eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þarna komu saman vinir og vandamenn brúðhjónanna í bland við ,,atvinnumenn” eins og sjálfan mig. Allir sátu sem gestir í athöfninni og stóðu tvisvar upp til að syngja. Fjórradda og án undirleiks. Þetta var keppnis.

Brúðguminn var reyndar ekkert á því að launa tenórnum sönginn á knattspyrnuvellinum. Af meðferðinni að dæma mætti jafnvel færa fyrir því rök að hann hefði verið mjög ósáttur með frammistöðu tenórsins.

En það var rétt og satt sem mig grunaði, maðurinn er leikari. Og það sem meira er hann lék í bíómyndinni Á annan veg, sem var sunnudagsmyndin á Rúv núna síðast. Myndin fjallar um líf tveggja vegagerðamanna og gerist í kringum árið 1978.

Sumarið 2010 fór ég ásamt Trausta frænda í sund á Patreksfirði (hvers einasta kílómetra virði í keyrslu, seeing is believing). Það er líklega satt sem margir segja að vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum eru brýnasta samgöngubót á Íslandi. Byggðin lokast inni hluta af vetri og vegirnir sjálfir eru skrykkjóttir moldarvegir. Þessu kynntumst við ágætlega en þó vorum við á ferðinni í ágúst og því kjöraðstæður. Við keyrðum inn í þoku upp á einni heiðinni og þegar við komum niður gjörbreyttist raunveruleikinn. Gulu plaststikurnar hurfu og í stað þeirra komu gömlu viðarstikurnar og vörðuðu leið okkar. Áfram héldum við og skyndilega keyrði á móti okkur Land Rover, á að giska síðan 1970. Þar á eftir fylgdu menn í lopapeysum.

Í gegnum hvaða tímagat keyrðum við upp á þessari heiði? var fyrsta hugsunin mín. Nokkrum tugum metra síðar kom svo svarið.

Þarna höfðum við óaðvitandi keyrt inn í settið fyrir bíómyndina Á annan veg. Og ætli það segi ekki allt sem segja þarf um vegina á sunnanverðum Vestfjörðum, að það eina sem þurfti að gera til að aðlaga aðstæður að íslenskum veruleika árið 1978… var að skipta út stikunum. 

Múgsefjun

Standard

Líklega gekk ég aðeins of langt í gær.

Ég var að leggja bílnum í stæði á Bergþórugötunni þegar á móti mér kom labbandi maður sem mér fannst ég kannast eitthvað við. Kom því þó ekki fyrir mig hvaðan og í staðinn fyrir að láta þar við sitja urðu það af einhverjum ástæðum viðbrögð mín að skrúfa niður rúðuna á bílnum þegar maðurinn gekk fram hjá og kalla á eftir honum

Hey….. ert þú ekki söngvarinn í Múgsefjun?

Maðurinn horfði þá í áttina til mín og svaraði þessari spurningu játandi en hikandi. Viðbrögð mín við því svari urðu þá að hækka vel í geislaspilaranum í bílnum, hækka róminn og kalla á manninn.

ÞETTA ER GEÐVEIKUR DISKUR HJÁ YKKUR!

Söngvarinn brosti breitt við þetta leikrit mitt og þakkaði mér kærlega fyrir. Hann hélt svo áfram för sinni, ég lagði bílnum en hugsaði strax um hvað í ósköpunum ég var eiginlega að gera! Það er samt alveg spurning hvor hafi brosað meira. Hann við þessa óvæntu uppákomu hjá mér eða ég einni mínútu síðar og svo núna þegar ég rifja upp þessa sögu og kem henni í orð :)

Þarna urðu líka til tvær sögur.

Ég, á leiðinni í matarboð í grendinni, gekk um brosandi og skellti af og til smá uppúr þegar ég reyndi að skilja af hverju þetta urðu viðbrögð mín í þessum aðstæðum? En á sama tíma gat ég ekki beðið eftir að segja frá þessu.

Nýi vinur minn hefur svo líklega haldið för sinni áfram og komið á sinn áfangastað, þar sem hann hefur heilsað með orðunum; Ég verð að segja ykkur í hverju ég lenti rétt í þessu!

Það fær svo að fylgja með sögunni að það sem ég var að hlusta á var lagið Sitjum og bíðum af nýlegri plötu Múgsefjun sem ber einfaldlega nafn hljómsveitarinnar.

Fyrir forvitna vil ég benda á fyrri skrif mín um hljómsveitina og vek þá sérstaka athygli á sögunni á bak við ótrúlegan textann við lagið Sendlingur og Sandlóa. Það skal svo koma fram að ég stend við orðin síðan í gær. Diskurinn er geðveikt góður og ég mæli eindregið með að þið komist að því upp á eigin spýtur. Til dæmis með því að hlusta á hana á gogoyoko og svo auðvitað með því að fjárfesta í gripnum. Þið vitið nefnilega aldrei hvenær söngvarinn í Múgsefjun labbar næst framhjá bílnum ykkar.

Föstudagsfróðleikur – Hdl.

Standard

Svona.

Grunar mig að skikkjurnar fyrir Héraðs og Hæstarétti hafi byrjað.

Lögfræðingar eiga það nefnilega til að taka sig full hátíðlega og líta á sig sem einhvers konar heilaskurðlækna atvinnulífsins. Uppeldið byrjar líka snemma. Í háskóla er til dæmis ekki farið í vísindaferðir, nei lögfræðinemar fara í kokteila. Þessi ranghugsun heldur síðan áfram þegar kemur út á atvinnumarkaðinn.

Ég er í kokteil er svarið sem ég fæ stundum þegar ég hringi í lögfræðing síðdegis á föstudegi.
Ókey, hvar ertu? spyr ég þá og sé fyrir mér anddyrið á Hörpunni eða eitthvað álíka.
Á English, er iðulega svarið.

Svo það sé alveg á hreinu þá er það jafn mikill kokteill og Bæjarins Besta er út að borða. Þó reyndar sé það að fá sér pylsu á BB ,,úti” að borða. Sem eru einmitt týpísk rök sem lögfræðingur myndi koma með.

Lögfræðingar beita mörgum brögðum til þess að gera sig merkilegri en aðra. En hvaða ,,blekið er alveg að verða búið í BIC pennanum mínum” vandamál, skapaðist þegar menn ákváðu þetta veit ég ekki. Lögin eru sem sagt þannig að þegar skrifað er undir samning þarf tvo votta að undirskriftunum. NEMA í þeim tilvikum sem annar votturinn er lögfræðingur með hdl réttindi, þá nægir nefnilega ein undirskrift.

En eftir stendur spurningin. Hafa lögfræðingar virkilega áunnið sér svo mikið traust að þeim sé treystandi til að votta samninga einir og er hdl prófið sá hreinsunareldur sem ganga þarf í gegnum til að ávinna sér það traust? Maður spyr sig.

Mín skoðun er sú að ef einhverjir eigi á annað borð að fá að votta samninga einir þá sé listinn eftirfarandi: leik og grunnskólakennarar, fólk í heilbrigðisstéttinni og umönnunarstörfum, Vigdís Finnbogadóttir, björgunarsveitarfólk og íslenska handboltalandsliðið.

Við sjáumst

Standard

Þetta eru tvö vitlausustu orð sem hægt er að setja saman í setningu í sundlaug. Það að hitta gamlan vinnufélaga eða skólabróður/systur í sturtunum getur verið gaman. Fá þriggja mínútna update á hvað viðkomandi hefur verið að gera undanfarin 5-10 ár. Þangað til annar aðilinn er kominn í sundfötin og kveður með orðunum; gaman að hitta þig, við sjáumst.

Þremur mínútum síðar sitjið þið svo á móti hvort öðru í heita pottinum.

Samræðurnar höfðu runnið sitt skeið á enda í sturtunni og báðir aðilar voru mjög sáttir. En þarna ert þú neyddur til að endurtaka leikinn og núna (svo við notum sundtengda myndlíkingu) þarf að kafa mun dýpra ofan í samræðurnar.

Ertu ennþá í sambandi við einhverja úr gamla árganginum?
Já, ég hitti reglulega Sigga og Gunna. Svo heyri ég oft í Kristínu. Manstu eftir þeim?
Ég held það. Myndi örugglega þekkja þau ef ég sæi þau á mynd.

Svona gengur þetta þangað til annar aðilinn heldur ferð sinni áfram. Jæja, ég ætla að koma mér. Við sjáumst.

Og svo eru gömlu félagarnir stuttu seinna enn og aftur sameinaðir í gufunni. Nema núna eru báðir aðilar búnir að gefast upp og nikka bara hvorn annan og brosa vandræðalega. Það er þangað til annar aðilinn gefst upp á hitanum og flýr út. Þá er kastað enn einni kveðjunni til að fylla upp í vandræðalega tómarúmið. Jæja…. við sjáumst.

OG VITI MENN! Það er nákvæmlega það sem gerist nokkrum mínútum seinna í sturtunum. Svo við handklæðin. Í búningsklefanum og síðast en ekki síst í anddyrinu þar sem annar aðilinn bíður milli vonar og ótta og óskar þess heitt og innilega að semferðamaðurinn í sundferðinni verði fyrri til að koma út úr hinum búningsklefanum. En líklega er það gamli skólafélaginn sem birtist fyrst og gengur framhjá þér, þar sem þið skiptist á brosi og í síðasta sinn kveðjunni; Við sjáumst.

Ein mynd. Þrír brandarar

Standard

Vísir.is birti þessa fínu mynd af ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi í gær. Það verður seint sagt að gleðin skíni úr augunum á ráðherrunum okkar. En það má nú samt hafa gaman af henni.

Hér eru þrjár mis gáfulegar tilraunir til spaugs.

Nr. 1

Stemningin á ríkisráðsfundinum í gær var svo heimilisleg að Guðbjartur Hannesson velferðaráðherra var fenginn til þess að taka myndina.

Nr. 2

Það var rosalega gaman á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum í gær og mikið hlegið. Það er að segja alveg þangað til forsetinn ákvað að koma ríkisstjórninni á óvart og gefa öllum Mogga iPad. Þá fóru allir í fýlu.

Nr. 3 (Þessi hljómar eiginlega betur á ensku)

Framkvæmd fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar hefur gengið vonum framar. Í gær var til dæmis “take your daughter to work day”.

Á myndina vantar Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Katrínu Jakobsdóttir menntamálaráðherra.