Sendlingur og sandlóa

Standard

Í síðustu viku fór ég á frábæra útgáfutónleika hljómsveitarinnar Múgsefjun í Fríkirkjunni. Áður en ég keypti mér miða hafði ég bara hlustað á þau lög sem ratað höfðu á Rás tvö, en dagana fyrir tónleikana undirbjó ég mig með því að hlusta á plötuna í heild sinni inn á Gogoyoko.

Ég féll algjörlega fyrir plötunni og ekki minnkaði hrifningin eftir frábæran flutning hljómsveitarinnar á tónleikunum sjálfum. Það er nefnilega allt annað en samasem merki milli þess að láta plötu hljóma vel á í stúdíó og svo sem lifandi flutning. Tala nú ekki um þegar um er að ræða eins fjölbreytta og metnaðarfulla plötu og hún er hjá Múgsefjun.

Eftir tónleikana tók ég svo skrefið til fulls og fjárfesti í geisladisknum sjálfum og verslaði beint af býli. Platan hefur nú hljómað í bílnum síðustu daga með góðum árangri.

Tvö vinsælustu lögin á plötunni eru án vafa Sendlingur og sandlóa og Fékkst ekki nóg. Sjálfur er ég þó að bíða eftir því að lagið Sitjum og bíðum nái álíka vinsældum og þau.

Á laugardaginn síðastliðinn var ég í brúðkaupi hjá Þóru vinkonu minni og samstarfskonu. Ég sat til borðs með Vigdísi, sem er systir trommarans í Múgsefjun. Við brutum ísinn við borðið með því að ég óskaði henni til hamingju með útgáfutónleikana hjá litla bróður hennar og sagði henni hvernig ég hefði algjörlega fallið fyrir plötunni þeirra. Við vorum líka sammála um að Sitjum og bíðum væri næsti ,,hittarinn”.

Vigdísi sagði mér að bróðir sinn væri að fara út í nám og því væri hljómsveitin að leita að trommara. Það sagði ég að væri ekki vandamál, ég ætti frænda sem væri ungur og útlærður trommari og ég sagði að það væri minnsta mál að koma honum í bandið. Við skáluðum fyrir þessari prýðisgóðu hugmynd okkar og núna er bara að sjá og heyra hvort þessi hvítvíns-litaða hugmynd okkar sé eins góð þegar ég ber hana undir Kristinn Gauta frænda.

En Vigdís sagði mér líka söguna á bak við lagið Sendlingur og sandlóa. Textinn sem er eftir Eirík bróður hennar er líka frábær lesning einn og sér. Lagið er ástarsaga og í textanum er myndmálið tveir fuglar sem eiga að túlka strák og stelpu. Ástarsambandið gengur hins vegar ekki upp því stelpan flytur til útlanda. Og þá kemur að fuglunum, Sendlingur og Sandlóa eru nefnilega báðir fuglar sem hafa numið land á Íslandi. Sendlingurinn er hins vegar staðfugl sem dvelur allt árið á landinu á meðan sandlóan er farfugl sem fer á haustin. Sem gefur hinni frábæru línu; Til ákafans þeir finna sem bara deila fimm af tólf, dýpri merkingu

Færsluna hef ég myndskreytt með myndböndum af laginu Sendlingur og sandlóa og Sitjum og bíðum sem ég ætla að giska á að fari næst í spilun. Og svo auðvitað hinn frábæri texti um ástarsamband sendlingsins og sandlóunnar. Takið sérstaklega eftir hvernig árstíðirnar breytast eftir því sem líður á textann.

Bárujárnið bar ekki meir,
undið og úrvinda.
Haustsins veðurbrigði bundu á það byrði úr leir.

Fætur finna fast eftir bið
sem varði um óratíð.
Spyrna sér að landi af fleka bundnum bandi og við
en eftir situr flekinn og rekur inn á ókunn mið.

Á grein hangir lauf, á fjalli fitnar fé,
á blómsins blaði situr býflugan.
Eitt er það sem merkir þessi pör,
lík örlög bíða þeirra því að haustið skilur þau að.

Skynseminnar mótvægislóð skella í skálina,
hífa upp úr húmi, af skónum þeytist skúmi á gólf.
Til ákafans þeir finna sem bara deila fimm af tólf.
Sendlingur og sandlóa
sem áður voru einmana
í samverunni styrktu hjörtun veik.

Skeyttu ei um sinn litamun,
ungar af tveimur tegundum,
sungust á við saltsins undirleik.

Í vestri er tendrað bál sem litar bæ og litar ský.
Glópurinn gleðst er glóðin gefur grámettuðum hnoðrunum líf.

Sólin sekkur í sjó
og vagninn sem hana dró
skreytir næturhimininn.

Í undralandi kannski
rætist draumur þessi
um farsældarferðalag.

Að minn góði vinur besti,
laus við alla lesti,
færi mér nýjan dag.

Að á mér sjái aumur,
sköpin sem ég renndi
svo stöðvist sá taumur
sem bárujárnið skemmdi.

Að á mér sjái aumur,
sköpin sem ég renndi
svo stöðvist sá flaumur
sem bárujárnið brenndi.

Sendlingur og sandlóa
sem áður voru einmana
í samverunni styrktu hjörtun veik.

Skeyttu ei um sinn litamun,
ungar af tveimur tegundum,
sungust á við saltsins undirleik.

Í vestri er tendrað bál sem litar bæ og litar ský
og læsir sig í fjaðrirnar.

Föstudagsfróðeikur – Með allt á hreinu

Standard

Sunnudagsbíómyndin á Rúv fyrir viku var Stuðmannamyndin Með allt á hreinu. Enn þann dag í dag eru heilu saumaklúbbarnir sem tjá sig varla öðruvísi en að vitna í Stellu í Orlofí eða Með allt á hreinu. Lásin er inn út, inn inn út. Út með gæruna.

<BR>Stella í orlofi.

Með allt á hreinu segir meðal annars frá samskiptum þeirra Hörpu Sjöfn Hermundardóttur (leikin af Röggu Gísla) og Kristins Stuðs Styrkársson Proppe (leikin af Agli Helga). Þau eru par í upphafi myndarinnar og bæði meðlimir í hljómsveitinni Stuðmenn, en eftir að ástin kólnar yfirgefur Harpa Sjöfn hljómsveitina og stofnar stelpubandið Grýlurnar.

Stuðmenn eru búnir að skipuleggja tónleikaferðalag um Ísland en komast að því þegar þeir leggja í hann að Harpa Sjöfn og Grýlurnar líta svo á að þau eigi allt eins sama rétt að mæta á bókaða tónleika, þar sem Harpa Sjöfn hafi jú verið í hljómsveitinni.

Stuðmenn taka því vægast sagt illa þegar Grýlurnar á sinni hljómsveitarrútu taka fram úr rútu Stuðmanna. Þeir heita því að ef Dúddi nái að komast fram úr þeim og skila hljómsveitinni á réttan stað á undan Grýlunum þá fái hann hattinn hans Kris Kristofferson (sem internetið virðist ekki kannast við að hafi nokkru sinni gengið með hatt.)

Á þessum tímapunkti ákveða Stuðmenn að það verði sko engar kellingar í þessari ferð. Bara þeir strákarnir. Valgeir Guðjónsson bætir um betur og segir að það verði sko enginn helvítis rúta. Það verði langferðabíll. Og af hverju skyldi hann hafa sagt þetta? Jú, af því að orðið rúta er kvenkyns á meðan langferðabíll er karlkyns.

11 júní

Standard

Mamma segir að ég hafi líka alla tíð verið mikið afmælisbarn. Hefði titrað af spenningi yfir því að fara í leikskólann á afmælisdaginn minn og fá kórónu. Á sama tíma og Sigrún systir skalf af hræðslu við sömu tilhugsun. Og lítið hefur breyst í þessum málum, ekki einu sinni kórónan.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að afmælisdagurinn sé hátíðisdagur. Árið 2006 steig ég svo skrefið til fulls og ákvað að 11 júní yrði frídagur í mínu almanaki. Það er frí á afmælisdaginn hans Jesús, af hverju ekki Guð-finns?

Af og til heyrast gagnrýnisraddir út af þessari ákvörðun minni. En við gagnrýnendur mína vil ég segja að á afmælisdaginn minn í ár fór ég í brunch á Laundromat, lunch á Sushi Train, kaffi til Ármanns, verslaði í Sports Direct, nudd, sund og fótbolta. Hvað gerðuð þið á afmælisdaginn ykkar?

Svo á laugardaginn síðastliðinn var komið að því að halda afmælisveislu. Það gerði ég með því að vera með grillveislu í garðinum heima hjá mömmu og pabba. Öll hráefnin til að gera kvöldið frábært voru til staðar. Veðrið var gott, grillið var heitt, drykkirnir kaldir og vinirnir margir. Og uppskriftin heppnaðist fullkomlega. Fólk mætti snemma og fór seint, enda fátt sem skemmir gott sumarpartý meira en að mæta seint og fara svo í bæinn.

Einn gestur kom þó lengra að en aðrir. Myriam ákvað að heimsækja Ísland í sumar og passaði sérstaklega að heimsóknin lenti á afmælishelginni minni.

Þegar allir voru búnir að fá sér að borða, sló ég í glas og hélt litla tölu:

……Það að verða þrítugur þykir víst nokkuð merkilegt. Að yfirgefa tví-tuginn og taka á móti fertugsaldrinum finnst mörgum líka vera hræðileg tilhugsun, en ég deili ekki þeim áhyggjum. Það er heldur ekki hægt að segja að þrítugsafmælið hafi komið neitt sérstaklega mikið á óvart. Þetta átti sér auðvitað mjög langan aðdraganda. Og þrátt fyrir hrakspár og varnaðarorð virðast afleiðingarnar vera svipaðar og við 2000 vandann. Ýkt upp úr öllu valdi og ekkert gerist.

Annars skiptir árafjöldinn heldur ekki öllu máli, mér finnst bara svo gaman að eiga afmæli. Þannig að eftir því sem árunum fjölgar reyni ég að halda mér ungum með þeirri barnslegu gleði sem fylgir því að halda alltaf hátíðlega upp á afmælið sitt.

En ævi mannsins hafa samt fáir líst betur en Steinn Steinar í ljóði sínu Barn sem Raggi Bjarna söng svo eftirminnilega á sínum tíma. Þar fer hann í gegnum æviskeið mannsins í þremur versum. Allt frá sólarupprás hins unga barns til sólseturs í lífi gamals manns. Ætli ég sé ekki staddur einhvers staðar á versi tvö í því lagi.

Ég ákvað svo að enda ræðuna á því að bresta í söng og eins og upptakan hér að neðan ber með sér var þetta allt þaulæft. Ég hugsa svo að það halli ekki á neinn þegar ég segi að stjarna kvöldsins hafi verið Margeir vinur minn með þessari frammistöðu sinni.

Föstudagsfróðleikur – Sólarsamba

Standard

Um liðna helgi var algjör bongóblíða í Reykjavík. Sundlaugar og ísbúðir troðfullar af fólki og það að reyna að finna hamborgarabrauð og gas á grillið á sunnudeginum var gjörsamlega ómögulegt!

En vissuð þið að orðið bongóblíða kom fyrst fyrir í laginu Sólarsamba frá árinu 1988 og er því nýyrði eftir þá Magnús Kjartansson og Halldór Gunnarsson. Þess má til gamans geta að Magrét Gauja dóttir Magnúsar er litla stelpan sem syngur með honum í laginu.

Ég hef lesið þó nokkur viðtöl við Margréti þar sem hún talar um þá erfiðu lífsreynslu sem fylgdi því að vera Magga sólarsamba. Ég veit samt fyrir víst að þetta viðurnefni var sett fram af gríðarlegri virðingu og öfund, alla veganna af þeim sem voru yngri en hún. En allt er gott sem endar vel, því í fyrra las ég viðtal við Margéti Gauju þar sem hún lýsti raunum sínum út af Sólarsamba, en jafnframt að hún hefði nýlega samið frið við lagið og tekið það eftirminnilega í utanlandsferð, syngjandi í sleif.

Myndin hér að ofan er síðan þau feðginin tóku lagið saman á afmælistónleikum Magnús Kjartanssonar síðastliðinn vetur. En við skulum samt enda þetta á orginalnum. Og af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég tek enga ábyrgð á því að þetta lag taki sér varanlega bólfestu í hausnum á ykkur ;) Ég vek svo sérstaka athygli á því á 22 sekúndu þegar Maggi Kjartans kemst ekki inn á sviðið af því að hljómborðsgítarinn (kítarinn) varnar honum inngöngu. Nokkrum sekúndum síðar hljómar svo orðið bongóblíða í fyrsta skiptið á Íslandi.

Viltu kók?

Standard

Ég sagði ömmu um daginn að það hefði verið að opna sýning á verkum Kjarvals á Kjarlvalsstöðum. Þá sagði hún mér á móti að þegar afi Guðfinnur þurfti að fara suður út af vinnunni hefði hann alltaf búið á Hótel Borg. Kjarval bjó mjög lengi á Borginni og þegar hann vissi af afa í bænum átti hann það til að hringja í hann og spyrja hvort hann vildi kíkja í heimsókn og drekka með sér eina kók í gleri.

Já, tímarnir breytast og mennirnir með. Á meðan afi var í námi fyrir sunnan þá var hann í því að snúast fyrir reksturinn hjá Einari langafa fyrir vestan. Þá skrifaði hann bréf vestur og sagði frá því hvernig gengi í skólanum og í verkunum. Þá sagði hann sögur af innkaupaferðum sínum fyrir langafa þar sem hann sagðist ekki hafa farið í Ellingsen, heldur að hann hefði farið og hitt Ellingsen, enda var Ellingsen á þeim árum maður en ekki verslun.

Annars dettur mér ekkert í hug sem getur jafnast á við það að drekka kók með Kjarval. Eina manneskjan sem er jafn stór og Kjarval í huganum er líklega Björk. En hún bara of alþýðleg, ég gæti alveg trúað henni til að skipta með mér kók. Þannig að ég hallast helst að því að þetta væri eins og ef Egill Ólafsson hefði samband til að biðja mig um að panta pítsu á móti sér í tvennutilboði Dómínós.

tifa tifa tifa

Hæ hó jibbý jei

Standard

Á sunnudaginn fyrir viku labbaði ég meðfram Hudson ánni í New York ásamt Guðbjörtu vinkonu minni. Þar ríkti hjálfgerð þjóðhátíðarstemming enda Memorial day og flotavika. Þar sem ég var ekki alveg með það á hreinu þá spurði ég Guðbjörtu hvort hún myndi af hverju Bandaríkjamenn héldu upp á þjóðhátíðardaginn sinn 4 júlí? Hún staðfesti að það hefði verið vegna þess Bandaríkjamenn hefðu unnið stóra orrustu gegn Bretum og í framhaldi hafi verið skrifað undir sjálfstæðisyfirlýsinguna.

Í gær var þjóðhátíðardagur Dana en þann dag árið 1849 fengu þeir stjórnarskrána sína og urðu formlega konungsríki með þingbundna stjórn.

Í dag halda Svíar upp á sinn þjóðhátíðardag en þennan dag árið 1532 var Gustav Vasa kjörinn konungur sem markaði formlega stofnun Svíþjóðar í þeirri mynd sem er líkust þeirri sem er í dag.

Norðmenn héldu svo upp á þjóðhátíðardaginn hjá sér 17 maí og við Íslendingar mánuði síðar.

Þetta fær mann til að hugsa hversu margir ,,merkilegir” hlutir gerast á sumrin í löndum sem hafa kalda vetur. En ætli þetta sé bara allt ein stór tilviljun? Hefðum við Íslendingar verið jafn spenntir fyrir því að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar ef hann hefði fæðst í nóvember? Árið 1944 vissu menn alveg af gasblöðrunum og kandíflossinu enda var bæði fundið upp á 18 öld. Hefðum við ekki bara fundið aðra ástæðu til að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar að sumri til. ,,Vér mótmælum allir” daginn í júlí eða fullveldisdaginn í ágúst.

Eftir stutta rannsóknarvinnu sýnist mér mynstrið vera augljóst. Köld lönd halda upp á þjóðhátíðardaginn sinn á sumrin. Með einni undantekningu þó. Finnar halda upp á sinn þjóðhátíðardag 6 desember. Og fyrst einhverjir þurftu að gera það, þá kemur ekki á óvart að það skyldu vera þeir.

Já sjómannslíf

Standard

Ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir viku síðan og upplifði meðal annars Memorial Day sem er síðasta helgin í maí. Þá minnast Bandaríkjamenn þeirra sem dóu í þjónustu sinni við landið. Sjóherinn fagnar deginum með því að vera með Fleet week sem þýðir að flestir dátar í sjóhernum eru í landi.

Viku seinna halda Íslendingar upp á sjómannadaginn til þess að heiðra íslenska sjómanninn. Íslensk fyrirtæki birta heilsíðuauglýsingar í blöðunum, fólk mætir á hátíðardagskrá niður á höfn í sínu byggðarlagi og þú finnur ástæðu til að óska ættingjum sem starfa í sjávarútvegi til hamingju með daginn. Þess fyrir utan er það lögbundin skylda fyrir íslensk fiskiskip að vera í landi þennan dag.

Bæði Ísland og Bandaríkin eru með þessu að heiðra þær atvinnustéttir sem hafa áunnið sér virðingu þjóðarinnar, en þarna blasir áherslumunur landanna þó við.

Hjá mér er það orðin hefð að fara í sjómannadagskaffi á Hrafnistu í Hafnarfirði til ömmu. Það er alltaf jafn hátíðlegt að mæta þangað og sjá þessar gömlu hetjur hafsins. Menn og konur sem flest öll störfuðu í íslenskum sjávarútvegi á þeim árum þegar hafið gaf og hafið tók. Á þeim árum sem þetta fólk vann í sjávarútvegi þótti ekkert óeðlilegt ef 15-30 manns færust árlega á hafi úti.

Eftir kaffisopann býður amma okkur alltaf á handverksmarkað íbúa þar sem hægt er að skoða sig um og jafnvel kaupa muni. Fyrir tveimur árum missti ég mig algjörlega í viðskiptunum sem endaði með að Sigrún systir sagði stopp þegar ég var að fara að hlaupa upp í hraðbanka í þriðja sinn til þess að taka út 8 þúsund krónur fyrir líkan af skútu. Ég náði þó að kaupa þessa handmáluðu skóflu sem hefur sómað sér vel út á svölum á sumrin og hitaplatta sem vinnur svo sannarlega sitt verk vel.

Í ár ákvað Sigrún systir að svipta mig fjárræði meðan við löbbuðum í gegnum handverksmarkaðinn. En það var áður en ég hitti Freyju vinkonu mína sem seldi mér skófluna tveimur árum áður. Eftir að ég hafði suðað nógu lengi samþykkti Sigrún María að ég mætti þá kaupa þennan handmálaða bala. Sem mun í vikunni taka sér stöðu út á svölum, fullur af sumarblómum og auðvitað fallega máluðu skófluskafti eftir sama höfund. Þá á maður líka alla línuna.

Skoðanakannanir

Standard

Þessa dagana birtast vikulegar niðurstöður úr skoðanakönnunum á fylgi forsetaframbjóðandanna. Enda ekki skrítið, það eru ekki nema 25 dagar í kosningar.

En niðurstaðan úr óformlegri skoðanakönnun sem ég hef framkvæmt síðustu daga bendir eindregið til þess að ef fólk fær tvo valmöguleika. Annars vegar að finna óvænt þúsund kall í rassvasanum á gallabuxum sem hafa ekki verið notaðar lengi eða þá að vakna um miðja nótt og sjá að þú getur hæglega sofnað aftur og sofið í góða 4-5 tíma í viðbót, að þá velur fólk alltaf að fá að vakna um miðja nótt. Merkilegt nokk.

Föstudagfróðleikur -Teddybear

Standard

Ein allra besta æskuminning sem ég á tengist því að fá Bangsa bestaskinn. Það var ekki svo að mamma og pabbi skyldu gefa mér hann. Ég suðaði og suðaði en hann þótti of dýr. En þá var nú gott að eiga auka afrit af mömmu og Siffý frænka splæsti honum á uppáhalds frænda sinn. Í dag grunar mig að sálfræðingar geti farið að flokka fólk í tvo hópa. Þá sem fengu Bangsa bestaskinn og þá sem fengu ekki Bangsa bestaskinn. Þetta byggi ég á viðbrögðum þeirra sem hafa séð hann sitja makindalega út í horni heima, enda er hann engu minna stofuskraut en lukkubambus.

Einn minn allra besti Facebook vinur er rapparinn Pitbull. Um manninn vissi ég ekki neitt í byrjun árs en fylgist nú samviskusamlega með hverju skrefi hans. Eitt það örfáa sem við Pitbull eigum sameiginlegt er að við báðir fengum Bangsa bestaskinn þegar við vorum litlir.

Enska orðið yfir tuskubangsa er Teddybear. Orðið er skírskotun í 26. forseta Bandaríkjanna Theodore Roosevelt. Hann var mikill veiðimaður og var einhverju sinni á veiðum með ríkisstjóra Mississippi. Einhverjir vilja líka meina að þessi veiðiferð hafi jafnframt verið tilraun til að fá forsetann til að meta landamæri tveggja ríkja.
En aftur að veiðiferðinni, margir höfðu veitt dýr en Roosevelt hafði ekkert veitt. Einhverjir tóku þá upp á því að fanga bjarndýr, rota það, særa og binda við tré og buðu þvínæst forsetanum að skjóta dýrið. Forsetinn neitaði þessu. Sagði að þetta væri ekki í anda veiðanna og bað um að dýrið yrði drepið svo það þyrfti ekki að þjást lengur. Þessi saga af veiðiferðinni og réttvísi forsetans varð síðar ástæða þess að blaðamenn  Washington Post teiknuðu skopmynd af forsetanum í veiðiferðinni. Teddy and the bear.

Einn af þeim sem sáu þessa skopmynd notaði hana sem andagift þegar hann framleiddi fyrsta tuskubangsann sem hann auglýsti sem Teddy’s bear. Tuskubangsinn varð fljótlega mjög vinsæll og síðan þá hafi tuskubangsar verið kallaðir Teddybear.

Og hér er svo myndin sem byrjaði þetta allt saman.

Takk fyrir herra forseti. Án þín hefði ég aldrei fengið Bangsa bestaskinn.

Kongeligt

Standard

I dag er sondag og om sondagen snakker vi kun dansk. Það var ákveðið að koma með danskan föstudagsfróðleik á sunnudegi, sem verður svo sérstaklega viðeigandi eftir fréttir dagsins. Í dag var dóttur Jóakims danaprins og Maríu prinsessu nefnilega gefið nafn. Í Danmörku eins og á Íslandi er það regla að börn verða að hafa fengið nafn innan þriggja (eða sex) mánaða frá fæðingu. Íslendingarnir leysa þessi tímamörk með ítrekunum frá Hagstofunni, en Danirnir hafa allt annað og betra ráð til að ýta á eftir nafngift.

Í Danmörku er það einfaldlega þannig að ef barn hefur ekki fengið nafn innan gefinna tímamarka þá er þeim sjálfkrafa gefið nafnið Frederik eða Margareth.

Við Íslendingar gætum auðvitað tekið upp sambærilegt kerfi. En þar sem Dorrit er ekki hefðbundið íslenskt nafn þá myndum við leysa þetta með því að börn fengju sjálfkrafa nöfnin Jóhanna og Steingrímur. Nei ég segi bara svona….