Föstudagsfróðleikur – Ég veit þú kemur

Standard

Þau eru ófá eldheit ástarsamböndin sem hafa kviknað í Herjólfsdal á Þjóðhátíð ár hvert undir þessu lagi. Hvort þau hafi lifað af nóttina er hins vegar allt önnur saga. En sagan á bak við lagið er ekki þessi hefðbundna ástarsaga.

Lagið Ég veit þú kemur er eftir Oddgeir Kristjánsson sem var tónlistarkennari í Vestmannaeyjum en textinn er eftir Ása í bæ, þekktan textasmið og aflakóng á staðnum.

Á árunum 1933-1955 sömdu þeir félagarnir nánast öll Þjóðhátíðarlög og texta saman. Árið 1956 lést Oddgeir lang um aldur fram en lög eftir hann héldu samt áfram að vera Þjóðhátíðarlög en þá með nýjum textum. Meðan hann lifði var samstarfið þeirra þannig að Oddgeir samdi lagið og fór með það til Ása vinar síns sem svo samdi textann. Oddgeir var prúður maður á meðan það var meira líf í Ása í bæ, enda á sjónum.

Eitthvert árið var Oddgeir löngu búinn að semja lagið og koma því til Ása, sem hafði hins vegar dregið það úr hófi að semja textann við lagið. Það var farið að styttast í Þjóðhátíð og Oddgeir byrjaður að ókyrrast svo hann gerði sér ferð heim til Ása. Hann var heima hjá sér timbraður þegar Oddgeir kom og hitti hann og var mikið niðri fyrir. Hann væri löngu búinn að skila af sér laginu en Ási væri ekki að standa við sinn part samkomulagsins. Nú væri orðið stutt í Þjóðhátíð og lagið yrði að fara að verða klárt og með þessari framkomu sinni væri Ási að koma óorði á þá báða. Með þessum orðum kvaddi Oddgeir svo Ása.

Ási vissi vel upp á sig sökina og daginn eftir mætti hann heim til Oddgeirs vinar sínast og færði honum þennan texta. Ég ætla að fá að enda þetta á myndbandi sem var tekið núna um páskana fyrir Vestan. Flutningurinn er í höndum mín og ættingja minna í föðurætt. Ef þið lesið textann og hlustið á lagið þá heyrið þið og sjáið að þetta er fyrirgefningarbeiðni.

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

Og þá mun allt verða eins og var
sko áður en þú veist, þú veist.
Og þetta eina sem útaf bar
okkar á milli í friði leyst.

Og seinna, þegar tunglið hefur tölt um langan veg,
þá tölum við um drauminn sem við elskum, þú og ég.

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

….Og fyrir fróðleiksfúsa er rétt að taka það fram að hljóðfærið sem Kristinn Gauti frændi tekur sólóið á, heitir Kazoo og er algjörlega ómissandi í öll góð píanópartý.

One Comment

Leave a Reply