Teketill

Standard

,,Það er í lagi með mig!” kallaði Kári eftir að hafa dottið í tröppunum heima hjá mömmu og pabba. Teketillinn hennar mömmu var hins vegar ekki jafn heppinn. Hann var ástæðan fyrir öllum látunum sem fylgdu fallinu. Þá var að muna hvar í ósköpunum mamma geymdi aftur sópinn og fægiskófluna? Á þessu heimili hafði ég ekki gengið frá í að verða fimm ár og ekki var ég nú duglegur vinna inn fyrir vasapeningunum á  meðan ég bjó í kjallaranum.

Næstu daga tók við  örvæntingarfull leit að tekatli sambærilegum þeim sem hafði brotnað í hamaganginum á fyrstu hljómsveitaræfingunni í kjallaranum heima hjá mömmu og pabba. Já, það er ekki annað hægt að segja en þetta hafi farið af stað með látum.

Tveimur dögum seinna var ég á hraðferð upp Laugarveginn þegar ég hitti Jónda félaga. Jóndi hefur um áraraðir gefið út blaðið Grapevine og meðal annars gert garðinn frægann sem umboðsmaður Sprengjuhallarainnar. Við heilsuðumst og stoppuðum til að spjalla.

Hvert ertu á leiðinni? spurði Jóndi
Upp í Te og kaffi á Skólavörðustígnum svaraði ég
Já ókey, hvað vantar þar?
Ég þarf að kaupa nýjan teketil fyrir mömmu. Við brutum hennar á hljómsveitaræfingu á sunnudagsmorguninn.

Þarna sá Jóndi greinilega fyrir sé mikið rokk. Hljómsveitaræfing á laugardegi sem ílengdist fram á sunnudagsmorgun og gerði sig líklegan til að gefa mér high five. Með handabandi gaf ég Jónda hins vegar merki um að láta fimmuna síga.

Þetta var sko eftir messu á sunnudeginum, sagði ég.
Og það var organistinn sem braut teketilinn.

Jóndi leit á mig forviða. Áttu vin sem er organisti! Hvað er hann eiginlega gamall?

Jafngamall mér, svaraði ég af bragði. Og það sem meira er þá ertu að tala við einn af tenórunum þremur í Kirkjukór Háteigskirkju, sagði ég skælbrosandi.

Jóndi þagði í smá stund…. Þessi saga byrjaði rosalega vel, en svo klikkaði einhvern veginn allt sem hægt var að klikka.

Ég fann ekki teketilinn í þessari umferð. En allt er gott sem endar vel, nokkrum dögum síðar færði ég mömmu nýjan teketil sem Kári fann eftir langa leit að hinum eina rétta.

Og hvað hljómsveitina varðar, þá höfðum við engu gleymt og ekkert lært á þessari tíu ára pásu. Ef góður Guð-finnur lofar þá höldum við áfram að láta okkur dreyma drauma um frægð og frama. En þó aldrei fyrir utan verndað umhverfi kjallarans í Hvassaleitinu á sunnudagsmorgnum.

Leave a Reply