Við sjáumst

Standard

Þetta eru tvö vitlausustu orð sem hægt er að setja saman í setningu í sundlaug. Það að hitta gamlan vinnufélaga eða skólabróður/systur í sturtunum getur verið gaman. Fá þriggja mínútna update á hvað viðkomandi hefur verið að gera undanfarin 5-10 ár. Þangað til annar aðilinn er kominn í sundfötin og kveður með orðunum; gaman að hitta þig, við sjáumst.

Þremur mínútum síðar sitjið þið svo á móti hvort öðru í heita pottinum.

Samræðurnar höfðu runnið sitt skeið á enda í sturtunni og báðir aðilar voru mjög sáttir. En þarna ert þú neyddur til að endurtaka leikinn og núna (svo við notum sundtengda myndlíkingu) þarf að kafa mun dýpra ofan í samræðurnar.

Ertu ennþá í sambandi við einhverja úr gamla árganginum?
Já, ég hitti reglulega Sigga og Gunna. Svo heyri ég oft í Kristínu. Manstu eftir þeim?
Ég held það. Myndi örugglega þekkja þau ef ég sæi þau á mynd.

Svona gengur þetta þangað til annar aðilinn heldur ferð sinni áfram. Jæja, ég ætla að koma mér. Við sjáumst.

Og svo eru gömlu félagarnir stuttu seinna enn og aftur sameinaðir í gufunni. Nema núna eru báðir aðilar búnir að gefast upp og nikka bara hvorn annan og brosa vandræðalega. Það er þangað til annar aðilinn gefst upp á hitanum og flýr út. Þá er kastað enn einni kveðjunni til að fylla upp í vandræðalega tómarúmið. Jæja…. við sjáumst.

OG VITI MENN! Það er nákvæmlega það sem gerist nokkrum mínútum seinna í sturtunum. Svo við handklæðin. Í búningsklefanum og síðast en ekki síst í anddyrinu þar sem annar aðilinn bíður milli vonar og ótta og óskar þess heitt og innilega að semferðamaðurinn í sundferðinni verði fyrri til að koma út úr hinum búningsklefanum. En líklega er það gamli skólafélaginn sem birtist fyrst og gengur framhjá þér, þar sem þið skiptist á brosi og í síðasta sinn kveðjunni; Við sjáumst.

2 Comments

Leave a Reply