Föstudagfróðleikur -Teddybear

Standard

Ein allra besta æskuminning sem ég á tengist því að fá Bangsa bestaskinn. Það var ekki svo að mamma og pabbi skyldu gefa mér hann. Ég suðaði og suðaði en hann þótti of dýr. En þá var nú gott að eiga auka afrit af mömmu og Siffý frænka splæsti honum á uppáhalds frænda sinn. Í dag grunar mig að sálfræðingar geti farið að flokka fólk í tvo hópa. Þá sem fengu Bangsa bestaskinn og þá sem fengu ekki Bangsa bestaskinn. Þetta byggi ég á viðbrögðum þeirra sem hafa séð hann sitja makindalega út í horni heima, enda er hann engu minna stofuskraut en lukkubambus.

Einn minn allra besti Facebook vinur er rapparinn Pitbull. Um manninn vissi ég ekki neitt í byrjun árs en fylgist nú samviskusamlega með hverju skrefi hans. Eitt það örfáa sem við Pitbull eigum sameiginlegt er að við báðir fengum Bangsa bestaskinn þegar við vorum litlir.

Enska orðið yfir tuskubangsa er Teddybear. Orðið er skírskotun í 26. forseta Bandaríkjanna Theodore Roosevelt. Hann var mikill veiðimaður og var einhverju sinni á veiðum með ríkisstjóra Mississippi. Einhverjir vilja líka meina að þessi veiðiferð hafi jafnframt verið tilraun til að fá forsetann til að meta landamæri tveggja ríkja.
En aftur að veiðiferðinni, margir höfðu veitt dýr en Roosevelt hafði ekkert veitt. Einhverjir tóku þá upp á því að fanga bjarndýr, rota það, særa og binda við tré og buðu þvínæst forsetanum að skjóta dýrið. Forsetinn neitaði þessu. Sagði að þetta væri ekki í anda veiðanna og bað um að dýrið yrði drepið svo það þyrfti ekki að þjást lengur. Þessi saga af veiðiferðinni og réttvísi forsetans varð síðar ástæða þess að blaðamenn  Washington Post teiknuðu skopmynd af forsetanum í veiðiferðinni. Teddy and the bear.

Einn af þeim sem sáu þessa skopmynd notaði hana sem andagift þegar hann framleiddi fyrsta tuskubangsann sem hann auglýsti sem Teddy’s bear. Tuskubangsinn varð fljótlega mjög vinsæll og síðan þá hafi tuskubangsar verið kallaðir Teddybear.

Og hér er svo myndin sem byrjaði þetta allt saman.

Takk fyrir herra forseti. Án þín hefði ég aldrei fengið Bangsa bestaskinn.

One Comment

Leave a Reply