Já sjómannslíf

Standard

Ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir viku síðan og upplifði meðal annars Memorial Day sem er síðasta helgin í maí. Þá minnast Bandaríkjamenn þeirra sem dóu í þjónustu sinni við landið. Sjóherinn fagnar deginum með því að vera með Fleet week sem þýðir að flestir dátar í sjóhernum eru í landi.

Viku seinna halda Íslendingar upp á sjómannadaginn til þess að heiðra íslenska sjómanninn. Íslensk fyrirtæki birta heilsíðuauglýsingar í blöðunum, fólk mætir á hátíðardagskrá niður á höfn í sínu byggðarlagi og þú finnur ástæðu til að óska ættingjum sem starfa í sjávarútvegi til hamingju með daginn. Þess fyrir utan er það lögbundin skylda fyrir íslensk fiskiskip að vera í landi þennan dag.

Bæði Ísland og Bandaríkin eru með þessu að heiðra þær atvinnustéttir sem hafa áunnið sér virðingu þjóðarinnar, en þarna blasir áherslumunur landanna þó við.

Hjá mér er það orðin hefð að fara í sjómannadagskaffi á Hrafnistu í Hafnarfirði til ömmu. Það er alltaf jafn hátíðlegt að mæta þangað og sjá þessar gömlu hetjur hafsins. Menn og konur sem flest öll störfuðu í íslenskum sjávarútvegi á þeim árum þegar hafið gaf og hafið tók. Á þeim árum sem þetta fólk vann í sjávarútvegi þótti ekkert óeðlilegt ef 15-30 manns færust árlega á hafi úti.

Eftir kaffisopann býður amma okkur alltaf á handverksmarkað íbúa þar sem hægt er að skoða sig um og jafnvel kaupa muni. Fyrir tveimur árum missti ég mig algjörlega í viðskiptunum sem endaði með að Sigrún systir sagði stopp þegar ég var að fara að hlaupa upp í hraðbanka í þriðja sinn til þess að taka út 8 þúsund krónur fyrir líkan af skútu. Ég náði þó að kaupa þessa handmáluðu skóflu sem hefur sómað sér vel út á svölum á sumrin og hitaplatta sem vinnur svo sannarlega sitt verk vel.

Í ár ákvað Sigrún systir að svipta mig fjárræði meðan við löbbuðum í gegnum handverksmarkaðinn. En það var áður en ég hitti Freyju vinkonu mína sem seldi mér skófluna tveimur árum áður. Eftir að ég hafði suðað nógu lengi samþykkti Sigrún María að ég mætti þá kaupa þennan handmálaða bala. Sem mun í vikunni taka sér stöðu út á svölum, fullur af sumarblómum og auðvitað fallega máluðu skófluskafti eftir sama höfund. Þá á maður líka alla línuna.

2 Comments

  1. Varstu í NY á FLEET WEEK?!?!?! Var borgin full af mönnum í matrósafötum???
    p.s. Klisjan um konur sem elska karlmenn í búningum á við mig.

  2. Jebb, en það voru bara unglingar sem voru í matrósafötum. Þessir sem skræla kartöflurnar. Alvöru karlmennirnir virtust klæðast hvítum einkennisbúningum og vera með hatt.

Leave a Reply