Viltu kók?

Standard

Ég sagði ömmu um daginn að það hefði verið að opna sýning á verkum Kjarvals á Kjarlvalsstöðum. Þá sagði hún mér á móti að þegar afi Guðfinnur þurfti að fara suður út af vinnunni hefði hann alltaf búið á Hótel Borg. Kjarval bjó mjög lengi á Borginni og þegar hann vissi af afa í bænum átti hann það til að hringja í hann og spyrja hvort hann vildi kíkja í heimsókn og drekka með sér eina kók í gleri.

Já, tímarnir breytast og mennirnir með. Á meðan afi var í námi fyrir sunnan þá var hann í því að snúast fyrir reksturinn hjá Einari langafa fyrir vestan. Þá skrifaði hann bréf vestur og sagði frá því hvernig gengi í skólanum og í verkunum. Þá sagði hann sögur af innkaupaferðum sínum fyrir langafa þar sem hann sagðist ekki hafa farið í Ellingsen, heldur að hann hefði farið og hitt Ellingsen, enda var Ellingsen á þeim árum maður en ekki verslun.

Annars dettur mér ekkert í hug sem getur jafnast á við það að drekka kók með Kjarval. Eina manneskjan sem er jafn stór og Kjarval í huganum er líklega Björk. En hún bara of alþýðleg, ég gæti alveg trúað henni til að skipta með mér kók. Þannig að ég hallast helst að því að þetta væri eins og ef Egill Ólafsson hefði samband til að biðja mig um að panta pítsu á móti sér í tvennutilboði Dómínós.

tifa tifa tifa

Leave a Reply