Hæ hó jibbý jei

Standard

Á sunnudaginn fyrir viku labbaði ég meðfram Hudson ánni í New York ásamt Guðbjörtu vinkonu minni. Þar ríkti hjálfgerð þjóðhátíðarstemming enda Memorial day og flotavika. Þar sem ég var ekki alveg með það á hreinu þá spurði ég Guðbjörtu hvort hún myndi af hverju Bandaríkjamenn héldu upp á þjóðhátíðardaginn sinn 4 júlí? Hún staðfesti að það hefði verið vegna þess Bandaríkjamenn hefðu unnið stóra orrustu gegn Bretum og í framhaldi hafi verið skrifað undir sjálfstæðisyfirlýsinguna.

Í gær var þjóðhátíðardagur Dana en þann dag árið 1849 fengu þeir stjórnarskrána sína og urðu formlega konungsríki með þingbundna stjórn.

Í dag halda Svíar upp á sinn þjóðhátíðardag en þennan dag árið 1532 var Gustav Vasa kjörinn konungur sem markaði formlega stofnun Svíþjóðar í þeirri mynd sem er líkust þeirri sem er í dag.

Norðmenn héldu svo upp á þjóðhátíðardaginn hjá sér 17 maí og við Íslendingar mánuði síðar.

Þetta fær mann til að hugsa hversu margir ,,merkilegir” hlutir gerast á sumrin í löndum sem hafa kalda vetur. En ætli þetta sé bara allt ein stór tilviljun? Hefðum við Íslendingar verið jafn spenntir fyrir því að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar ef hann hefði fæðst í nóvember? Árið 1944 vissu menn alveg af gasblöðrunum og kandíflossinu enda var bæði fundið upp á 18 öld. Hefðum við ekki bara fundið aðra ástæðu til að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar að sumri til. ,,Vér mótmælum allir” daginn í júlí eða fullveldisdaginn í ágúst.

Eftir stutta rannsóknarvinnu sýnist mér mynstrið vera augljóst. Köld lönd halda upp á þjóðhátíðardaginn sinn á sumrin. Með einni undantekningu þó. Finnar halda upp á sinn þjóðhátíðardag 6 desember. Og fyrst einhverjir þurftu að gera það, þá kemur ekki á óvart að það skyldu vera þeir.

Leave a Reply