11 júní

Standard

Mamma segir að ég hafi líka alla tíð verið mikið afmælisbarn. Hefði titrað af spenningi yfir því að fara í leikskólann á afmælisdaginn minn og fá kórónu. Á sama tíma og Sigrún systir skalf af hræðslu við sömu tilhugsun. Og lítið hefur breyst í þessum málum, ekki einu sinni kórónan.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að afmælisdagurinn sé hátíðisdagur. Árið 2006 steig ég svo skrefið til fulls og ákvað að 11 júní yrði frídagur í mínu almanaki. Það er frí á afmælisdaginn hans Jesús, af hverju ekki Guð-finns?

Af og til heyrast gagnrýnisraddir út af þessari ákvörðun minni. En við gagnrýnendur mína vil ég segja að á afmælisdaginn minn í ár fór ég í brunch á Laundromat, lunch á Sushi Train, kaffi til Ármanns, verslaði í Sports Direct, nudd, sund og fótbolta. Hvað gerðuð þið á afmælisdaginn ykkar?

Svo á laugardaginn síðastliðinn var komið að því að halda afmælisveislu. Það gerði ég með því að vera með grillveislu í garðinum heima hjá mömmu og pabba. Öll hráefnin til að gera kvöldið frábært voru til staðar. Veðrið var gott, grillið var heitt, drykkirnir kaldir og vinirnir margir. Og uppskriftin heppnaðist fullkomlega. Fólk mætti snemma og fór seint, enda fátt sem skemmir gott sumarpartý meira en að mæta seint og fara svo í bæinn.

Einn gestur kom þó lengra að en aðrir. Myriam ákvað að heimsækja Ísland í sumar og passaði sérstaklega að heimsóknin lenti á afmælishelginni minni.

Þegar allir voru búnir að fá sér að borða, sló ég í glas og hélt litla tölu:

……Það að verða þrítugur þykir víst nokkuð merkilegt. Að yfirgefa tví-tuginn og taka á móti fertugsaldrinum finnst mörgum líka vera hræðileg tilhugsun, en ég deili ekki þeim áhyggjum. Það er heldur ekki hægt að segja að þrítugsafmælið hafi komið neitt sérstaklega mikið á óvart. Þetta átti sér auðvitað mjög langan aðdraganda. Og þrátt fyrir hrakspár og varnaðarorð virðast afleiðingarnar vera svipaðar og við 2000 vandann. Ýkt upp úr öllu valdi og ekkert gerist.

Annars skiptir árafjöldinn heldur ekki öllu máli, mér finnst bara svo gaman að eiga afmæli. Þannig að eftir því sem árunum fjölgar reyni ég að halda mér ungum með þeirri barnslegu gleði sem fylgir því að halda alltaf hátíðlega upp á afmælið sitt.

En ævi mannsins hafa samt fáir líst betur en Steinn Steinar í ljóði sínu Barn sem Raggi Bjarna söng svo eftirminnilega á sínum tíma. Þar fer hann í gegnum æviskeið mannsins í þremur versum. Allt frá sólarupprás hins unga barns til sólseturs í lífi gamals manns. Ætli ég sé ekki staddur einhvers staðar á versi tvö í því lagi.

Ég ákvað svo að enda ræðuna á því að bresta í söng og eins og upptakan hér að neðan ber með sér var þetta allt þaulæft. Ég hugsa svo að það halli ekki á neinn þegar ég segi að stjarna kvöldsins hafi verið Margeir vinur minn með þessari frammistöðu sinni.

2 Comments

Leave a Reply