Sendlingur og sandlóa

Standard

Í síðustu viku fór ég á frábæra útgáfutónleika hljómsveitarinnar Múgsefjun í Fríkirkjunni. Áður en ég keypti mér miða hafði ég bara hlustað á þau lög sem ratað höfðu á Rás tvö, en dagana fyrir tónleikana undirbjó ég mig með því að hlusta á plötuna í heild sinni inn á Gogoyoko.

Ég féll algjörlega fyrir plötunni og ekki minnkaði hrifningin eftir frábæran flutning hljómsveitarinnar á tónleikunum sjálfum. Það er nefnilega allt annað en samasem merki milli þess að láta plötu hljóma vel á í stúdíó og svo sem lifandi flutning. Tala nú ekki um þegar um er að ræða eins fjölbreytta og metnaðarfulla plötu og hún er hjá Múgsefjun.

Eftir tónleikana tók ég svo skrefið til fulls og fjárfesti í geisladisknum sjálfum og verslaði beint af býli. Platan hefur nú hljómað í bílnum síðustu daga með góðum árangri.

Tvö vinsælustu lögin á plötunni eru án vafa Sendlingur og sandlóa og Fékkst ekki nóg. Sjálfur er ég þó að bíða eftir því að lagið Sitjum og bíðum nái álíka vinsældum og þau.

Á laugardaginn síðastliðinn var ég í brúðkaupi hjá Þóru vinkonu minni og samstarfskonu. Ég sat til borðs með Vigdísi, sem er systir trommarans í Múgsefjun. Við brutum ísinn við borðið með því að ég óskaði henni til hamingju með útgáfutónleikana hjá litla bróður hennar og sagði henni hvernig ég hefði algjörlega fallið fyrir plötunni þeirra. Við vorum líka sammála um að Sitjum og bíðum væri næsti ,,hittarinn”.

Vigdísi sagði mér að bróðir sinn væri að fara út í nám og því væri hljómsveitin að leita að trommara. Það sagði ég að væri ekki vandamál, ég ætti frænda sem væri ungur og útlærður trommari og ég sagði að það væri minnsta mál að koma honum í bandið. Við skáluðum fyrir þessari prýðisgóðu hugmynd okkar og núna er bara að sjá og heyra hvort þessi hvítvíns-litaða hugmynd okkar sé eins góð þegar ég ber hana undir Kristinn Gauta frænda.

En Vigdís sagði mér líka söguna á bak við lagið Sendlingur og sandlóa. Textinn sem er eftir Eirík bróður hennar er líka frábær lesning einn og sér. Lagið er ástarsaga og í textanum er myndmálið tveir fuglar sem eiga að túlka strák og stelpu. Ástarsambandið gengur hins vegar ekki upp því stelpan flytur til útlanda. Og þá kemur að fuglunum, Sendlingur og Sandlóa eru nefnilega báðir fuglar sem hafa numið land á Íslandi. Sendlingurinn er hins vegar staðfugl sem dvelur allt árið á landinu á meðan sandlóan er farfugl sem fer á haustin. Sem gefur hinni frábæru línu; Til ákafans þeir finna sem bara deila fimm af tólf, dýpri merkingu

Færsluna hef ég myndskreytt með myndböndum af laginu Sendlingur og sandlóa og Sitjum og bíðum sem ég ætla að giska á að fari næst í spilun. Og svo auðvitað hinn frábæri texti um ástarsamband sendlingsins og sandlóunnar. Takið sérstaklega eftir hvernig árstíðirnar breytast eftir því sem líður á textann.

Bárujárnið bar ekki meir,
undið og úrvinda.
Haustsins veðurbrigði bundu á það byrði úr leir.

Fætur finna fast eftir bið
sem varði um óratíð.
Spyrna sér að landi af fleka bundnum bandi og við
en eftir situr flekinn og rekur inn á ókunn mið.

Á grein hangir lauf, á fjalli fitnar fé,
á blómsins blaði situr býflugan.
Eitt er það sem merkir þessi pör,
lík örlög bíða þeirra því að haustið skilur þau að.

Skynseminnar mótvægislóð skella í skálina,
hífa upp úr húmi, af skónum þeytist skúmi á gólf.
Til ákafans þeir finna sem bara deila fimm af tólf.
Sendlingur og sandlóa
sem áður voru einmana
í samverunni styrktu hjörtun veik.

Skeyttu ei um sinn litamun,
ungar af tveimur tegundum,
sungust á við saltsins undirleik.

Í vestri er tendrað bál sem litar bæ og litar ský.
Glópurinn gleðst er glóðin gefur grámettuðum hnoðrunum líf.

Sólin sekkur í sjó
og vagninn sem hana dró
skreytir næturhimininn.

Í undralandi kannski
rætist draumur þessi
um farsældarferðalag.

Að minn góði vinur besti,
laus við alla lesti,
færi mér nýjan dag.

Að á mér sjái aumur,
sköpin sem ég renndi
svo stöðvist sá taumur
sem bárujárnið skemmdi.

Að á mér sjái aumur,
sköpin sem ég renndi
svo stöðvist sá flaumur
sem bárujárnið brenndi.

Sendlingur og sandlóa
sem áður voru einmana
í samverunni styrktu hjörtun veik.

Skeyttu ei um sinn litamun,
ungar af tveimur tegundum,
sungust á við saltsins undirleik.

Í vestri er tendrað bál sem litar bæ og litar ský
og læsir sig í fjaðrirnar.

2 Comments

  1. Án nokkurs vafa ein af bestu innlendu plötum ársins.

    Sitjum og bíðum verður næsti hittari og Þórðargleði væntanlega þar á eftir.

    Hef sagt það lengi og bloggað um það að Múgsefjun er vanmetnasta hljómsveit landsins.

Leave a Reply