Föstudagsfróðleikur – Hdl.

Standard

Svona.

Grunar mig að skikkjurnar fyrir Héraðs og Hæstarétti hafi byrjað.

Lögfræðingar eiga það nefnilega til að taka sig full hátíðlega og líta á sig sem einhvers konar heilaskurðlækna atvinnulífsins. Uppeldið byrjar líka snemma. Í háskóla er til dæmis ekki farið í vísindaferðir, nei lögfræðinemar fara í kokteila. Þessi ranghugsun heldur síðan áfram þegar kemur út á atvinnumarkaðinn.

Ég er í kokteil er svarið sem ég fæ stundum þegar ég hringi í lögfræðing síðdegis á föstudegi.
Ókey, hvar ertu? spyr ég þá og sé fyrir mér anddyrið á Hörpunni eða eitthvað álíka.
Á English, er iðulega svarið.

Svo það sé alveg á hreinu þá er það jafn mikill kokteill og Bæjarins Besta er út að borða. Þó reyndar sé það að fá sér pylsu á BB ,,úti” að borða. Sem eru einmitt týpísk rök sem lögfræðingur myndi koma með.

Lögfræðingar beita mörgum brögðum til þess að gera sig merkilegri en aðra. En hvaða ,,blekið er alveg að verða búið í BIC pennanum mínum” vandamál, skapaðist þegar menn ákváðu þetta veit ég ekki. Lögin eru sem sagt þannig að þegar skrifað er undir samning þarf tvo votta að undirskriftunum. NEMA í þeim tilvikum sem annar votturinn er lögfræðingur með hdl réttindi, þá nægir nefnilega ein undirskrift.

En eftir stendur spurningin. Hafa lögfræðingar virkilega áunnið sér svo mikið traust að þeim sé treystandi til að votta samninga einir og er hdl prófið sá hreinsunareldur sem ganga þarf í gegnum til að ávinna sér það traust? Maður spyr sig.

Mín skoðun er sú að ef einhverjir eigi á annað borð að fá að votta samninga einir þá sé listinn eftirfarandi: leik og grunnskólakennarar, fólk í heilbrigðisstéttinni og umönnunarstörfum, Vigdís Finnbogadóttir, björgunarsveitarfólk og íslenska handboltalandsliðið.

2 Comments

  1. Þess skal reyndar getið að ekki þarf votta nema fyrir gjörning sem skal þinglýsa en þar skal gjörningurinn vottaður af notario publico, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúum þeirra, löggiltum fasteignasala, eða tveimur vitundarvottum. Í þessu samhengi vill svo til að notario publico, lögmenn og fasteignasalar eru viðurkenndir lögbókendur (sem notario publico n.b. þýðir).

Leave a Reply