Múgsefjun

Standard

Líklega gekk ég aðeins of langt í gær.

Ég var að leggja bílnum í stæði á Bergþórugötunni þegar á móti mér kom labbandi maður sem mér fannst ég kannast eitthvað við. Kom því þó ekki fyrir mig hvaðan og í staðinn fyrir að láta þar við sitja urðu það af einhverjum ástæðum viðbrögð mín að skrúfa niður rúðuna á bílnum þegar maðurinn gekk fram hjá og kalla á eftir honum

Hey….. ert þú ekki söngvarinn í Múgsefjun?

Maðurinn horfði þá í áttina til mín og svaraði þessari spurningu játandi en hikandi. Viðbrögð mín við því svari urðu þá að hækka vel í geislaspilaranum í bílnum, hækka róminn og kalla á manninn.

ÞETTA ER GEÐVEIKUR DISKUR HJÁ YKKUR!

Söngvarinn brosti breitt við þetta leikrit mitt og þakkaði mér kærlega fyrir. Hann hélt svo áfram för sinni, ég lagði bílnum en hugsaði strax um hvað í ósköpunum ég var eiginlega að gera! Það er samt alveg spurning hvor hafi brosað meira. Hann við þessa óvæntu uppákomu hjá mér eða ég einni mínútu síðar og svo núna þegar ég rifja upp þessa sögu og kem henni í orð :)

Þarna urðu líka til tvær sögur.

Ég, á leiðinni í matarboð í grendinni, gekk um brosandi og skellti af og til smá uppúr þegar ég reyndi að skilja af hverju þetta urðu viðbrögð mín í þessum aðstæðum? En á sama tíma gat ég ekki beðið eftir að segja frá þessu.

Nýi vinur minn hefur svo líklega haldið för sinni áfram og komið á sinn áfangastað, þar sem hann hefur heilsað með orðunum; Ég verð að segja ykkur í hverju ég lenti rétt í þessu!

Það fær svo að fylgja með sögunni að það sem ég var að hlusta á var lagið Sitjum og bíðum af nýlegri plötu Múgsefjun sem ber einfaldlega nafn hljómsveitarinnar.

Fyrir forvitna vil ég benda á fyrri skrif mín um hljómsveitina og vek þá sérstaka athygli á sögunni á bak við ótrúlegan textann við lagið Sendlingur og Sandlóa. Það skal svo koma fram að ég stend við orðin síðan í gær. Diskurinn er geðveikt góður og ég mæli eindregið með að þið komist að því upp á eigin spýtur. Til dæmis með því að hlusta á hana á gogoyoko og svo auðvitað með því að fjárfesta í gripnum. Þið vitið nefnilega aldrei hvenær söngvarinn í Múgsefjun labbar næst framhjá bílnum ykkar.

3 Comments

 1. Guffi, þú verður að plögga fyrir okkar menn og hvetja alla lesendur til að fara og kjósa Sitjum og bíðum inn á vinsældarlista Rásar 2. Komum laginu í spilun og 1. sæti…

  Koma svo.

  kv. Kjarri.

  p.s. þessi lögfræðingapistill hjá þér er út í hött.

 2. Guffi minn, svona á þetta akkúrat að vera. Ef mér finnst eitthvað gott eða fallegt segi ég fólki frá því. Þú hefur örugglega glatt söngvarann :)
  Frábært að hrósa fólki sem á það skilið.
  Sakna þín,
  Sirrý :)

 3. Ég lít á mig sem einn af lærisveinum Múgsefjunar og ber út fagnaðarerindið hvert sem ég fer. Þessi saga ber þess líka merki, enda var ég að hlusta á Sitjum og bíðum þegar ég sá Hjalta söngvara.

  Nei Kjarri. Lögfræðingar eru út í hött :) Við þurfum á þeim að halda, en ekki eins mikið og þeir vilja sjálfir meina.

  Takk fyrir Sirrý mín, gott að vita af lestri á Patró. Já, það var strax augljóst að þetta gladdi hann, en líka af því að þetta var svo ruglað. Þetta var Fóstbræðra sketch :)

Leave a Reply