Guffi böggar fræga part II

Standard

Á mánudaginn var vikulegur fótbolti hjá B-liðinu. Mætingin var að stríða okkur svo Arnar 6 ára mætti með aukamann og eitthvað kannaðist ég nú við kauða. Gott ef hann var ekki leikari?

Svo ég Guffaði mig upp að honum enda þóttist ég eiga erindi;

Bíddu, varst þú ekki að gifta þig í sumar?
Jú.
Í Hallgrímskirkju?
Já.
Þá söng ég í brúðkaupinu þínu.

Í eyrum viðstaddra B-liðsmanna virkaði ég mjög vanur og kasjúal þegar ég sagði þetta. Það hljómaði dálítið eins og það að syngja í Hallgrímskirkju væri hversdagslegur hlutur, en þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef sungið í brúðkaupi. Orðaval og bragur bentu líka til þess að þarna hefði ég sungið einsöng með Monicu á hörpunni, þegar staðreyndin var þessi;

Þetta er reyndar eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þarna komu saman vinir og vandamenn brúðhjónanna í bland við ,,atvinnumenn” eins og sjálfan mig. Allir sátu sem gestir í athöfninni og stóðu tvisvar upp til að syngja. Fjórradda og án undirleiks. Þetta var keppnis.

Brúðguminn var reyndar ekkert á því að launa tenórnum sönginn á knattspyrnuvellinum. Af meðferðinni að dæma mætti jafnvel færa fyrir því rök að hann hefði verið mjög ósáttur með frammistöðu tenórsins.

En það var rétt og satt sem mig grunaði, maðurinn er leikari. Og það sem meira er hann lék í bíómyndinni Á annan veg, sem var sunnudagsmyndin á Rúv núna síðast. Myndin fjallar um líf tveggja vegagerðamanna og gerist í kringum árið 1978.

Sumarið 2010 fór ég ásamt Trausta frænda í sund á Patreksfirði (hvers einasta kílómetra virði í keyrslu, seeing is believing). Það er líklega satt sem margir segja að vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum eru brýnasta samgöngubót á Íslandi. Byggðin lokast inni hluta af vetri og vegirnir sjálfir eru skrykkjóttir moldarvegir. Þessu kynntumst við ágætlega en þó vorum við á ferðinni í ágúst og því kjöraðstæður. Við keyrðum inn í þoku upp á einni heiðinni og þegar við komum niður gjörbreyttist raunveruleikinn. Gulu plaststikurnar hurfu og í stað þeirra komu gömlu viðarstikurnar og vörðuðu leið okkar. Áfram héldum við og skyndilega keyrði á móti okkur Land Rover, á að giska síðan 1970. Þar á eftir fylgdu menn í lopapeysum.

Í gegnum hvaða tímagat keyrðum við upp á þessari heiði? var fyrsta hugsunin mín. Nokkrum tugum metra síðar kom svo svarið.

Þarna höfðum við óaðvitandi keyrt inn í settið fyrir bíómyndina Á annan veg. Og ætli það segi ekki allt sem segja þarf um vegina á sunnanverðum Vestfjörðum, að það eina sem þurfti að gera til að aðlaga aðstæður að íslenskum veruleika árið 1978… var að skipta út stikunum. 

2 Comments

Leave a comment to Guðfinnur Click here to cancel reply.