Kristín Sif

Standard

Kristín Sif litla frænka mín hélt upp á fjögurra ára afmælið sitt á fimmtudaginn síðastliðinn. Kóróna og söngur í leikskólanum, veisla fyrir vinina og fjölskylduna síðdegis en sú stutta höndlaði áreitið og þétta dagskránna eins og hetja. Það er nú ekkert lítið mál að verða fjögurra ára. Þetta var líka stór dagur í fjölskyldunni, hún hafði nefnilega lofað því að hætta með duddu á afmælisdaginn sinn. Sjáum samt til hvort að það gangi eftir.

Ég og Kristín Sif erum rosalega miklir vinir. Við mamma hennar erum systkinabörn, en samt svo miklu meira því mæður okkar eru tvíburar. Sem þýðir að við erum sem fjölskylda einu skrefi frá því að skiptast bara á húslyklum hjá hvort öðru, svo mikill er samgangurinn. Það reyndi þess vegna mikið á Sigrúnu systur, sem er nýflutt til Aarhus, að geta ekki verið í afmælinu. Hún er líka Guðmóðir Kristínar Sifjar, en þá er nú gott að ég sé Guðfinnur.

Kristín Sif fékk hefðbundinn harðan pakka í afmælisgjöf frá Guffa frænda. Að beiðni afmælisbarnsins var það glimmer naglalakk. En fyrir utan harðan pakka þá höfum við Sigrún María undanfarin fimm ár gefið þeim systrum, Kristínu Sif og Evu Margréti eldri systur hennar, gjafabréf á afmælisdögum. Þetta slær alltaf jafn mikið í gegn, en ég er ekki alveg viss um hvort þetta sé vinsælla hjá þeim systrum eða okkur systkinunum. Miða úrvalið í ár var svipað og undanfarin ár og ég leyfi mér að mæla með þessari hugmynd fyrir hugmyndasnauða ættingja á leið í barnaafmæli.

Kristín Sif er algjört draumabarn. Hún er hress og skemmtileg, brosmildur knúsari og alveg eldklár. Okkur frændsystkinunum þykir líka alveg afskaplega vænt um hvort annað og höfum reglulega gaman af því að leika okkur saman og gerum mikið af því.

Það var til dæmis í heimsókn með henni í Fjölskyldu og húsdýragarðinn, sem ég tók upp mjög svo umdeild fimmaura brandaramyndbönd. Sú stutta var fljót að læra brandarana hjá frænda sínum, enda átti hún eftir að heyra þá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á stuttum tíma. Samkynhneigðu hestarnir voru reyndar lengst af ,,samstæðir hestar” í hennar útgáfu, en það stóð ekki á svarinu þegar maður spurði hvað þeir borðuðu, og við skulum leyfa henni að eiga lokaorðin.

3 Comments

  1. Gaman að lesa þetta blogg um Kristínu Sif, takk fyrir Guffi minn hvað þú ert alltaf góður við ömmustelpurnar mínar það er ómetanlegt fyrir þær að eiga þig að.

Leave a Reply