Virðing Alþingis

Standard

Allt tal þingmanna um að bæta vinnubrögðin á þingi er góðra gjalda vert. En fögrum orðum verða að fylgja markvissar aðgerðir. Það er óskandi að það hafist í þetta skiptið, það er dálítið núna eða aldrei.

Á föstudaginn síðastliðinn varð ég vitni að ótrúlegri birtingarmynd á þeirri óvirðingu sem Alþingi virðist búa við. Ég skrapp frá í hádeginu og þegar ég kom til baka labbaði ég Austurvallarmegin, frá Dómkirkjunni í átt að gamla Landssímahúsinu. Samsíða mér en hinum megin við götuna var maður, á að giska á milli fimtugs og sextugs. Hann var vel til hafður, snyrtilegur. Bara ósköp venjulegur kall að mér virtist.

Þegar hann kom að Alþingishúsinu sá hann að tveir þingmenn sátu inn í litlu fundarherbergi sem snýr út að Austurvelli. Hann fikraði sig nær þeim og byrjaði að veifa höndunum til að fanga athyglina þeirra. Þegar hann náði augnsambandi þá sendi hann þeim fingurinn með báðum höndum og hélt höndunum nokk lengi á lofti.

Ég gapti af undrum yfir því sem ég hafði orðið vitni af. Maðurinn hélt síðan bara ferð sinni áfram. Við skiptumst reyndar á mjög skrítnu augnsambandi eftir þetta, enda löbbuðum við nánast samsíða en sitthvorum megin við götuna. Hvorugum okkar virtist líða vel á þeirri stundu.

Eftir vinnu þennan sama dag ákvað ég að smella af einni mynd af litla fundarherberginu (ég er nú einu sinni að halda úti bloggsíðu). Þar sem ég stend og tek myndina heyri ég hróp og köll hinum megin við götuna. Sný mér við “bíp” sé hund að keyra bíl. Nei, bímm baramm búmm, önnur birtingarmynd virðingarleysis gagnvart löggjafanum.

….Þó grunar mig að þessi myndataka hafi annað hvort verið afleiðing af töpuðu veðmáli eða hugmynd af fyndinni færslu á Facebook.

Leave a Reply