I’m bringing planking back

Standard

Nei nei nei nei, haldið að hann sé ekki bara byrjaður aftur að blogga.

Enda er það bjargföst trú mín að bloggið hafi lognast út af allt of fljótt og það fyrir verri miðla. Fórnað fyrir 140 stafabila tíst eða stuttar, samanþjappaðar uppfærslur á Facebook sem einhvers staðar í lengdinni (eða styttingunni) tapa merkingunni.  Þar sem keppst er um nokkurra sekúndna athygli lesandans á meðan fréttaveitan á hægri hlið þýtur áfram og öskrar á að hætta þessu dóli og fara eitthvað annað. Hvað ert þú að gera hér? Við erum öll löngu farin(n) að pósta, póka og læka eitthvað allt annað, á meðan þú ert ennþá staddur einhvers staðar fyrir tíu mínútum síðan. Halló! 2013 var að hringja og vill fá Harlem Shakið sitt til baka.

Og engu er það skárra frá hinum endanum séð. Að henda út í kosmósinn hnyttinni og hnitmiðaðri færslu og vera algjörlega háður öðrum um að hún vaxi og dafni ört. Að færslan safni lofi og lol-i.
Allir vita að fyrstu tveir klukkutímarnir í lífi færslu skipta öllu. Eftir það getur þú nánast gleymt þessu, þetta er búið. Nú getur þú bara beðið og vonað að einhver grandlaus vinur þinn í fornleifagreftri rekist óvart í Like takkann, sem endurveki færsluna í fréttaveitunni. And they tell two friends, and they tell two friends.

Nei, þá er bloggið nú betra. Vertu velkomin(n) inn í rólegt og notalegt umhverfi þar sem engin(n) er að flýta sér. Hér verður vonandi skrifað nokkuð reglulega í framtíðinni. Á síðu sem fróðustu menn segja mér að aðlagi sig meira að segja að tölvum og símtækjum viðkomandi. Já, svona er hún nú framtíðin.

 

2 Comments

  1. Jeij! Áfram Guffi! :)
    Mér finnst miklu skemmtilegra að lesa bloggið þitt en stuttar stöðuuppfærslur á facebook :)

Leave a Reply