Hreystikallið

Standard

Mottumars herferðin í ár kom eins og blaut tuska í andlitið á Esjumönnum. Okkur leið eins og við hefðum einir kóra ekki verið beðnir um að vera með. Hvernig mátti það eiginlega vera? Þetta var eins og vera einn heima á laugardagskvöldi og fylgjast með vinum pósta myndum úr afmælisveislu, sem þér einum var ekki boðið í.

Og fyrir mig sem formann kórsins var þetta mikið áfall. Mér fannst ég hafa brugðist hópnum og (í huganum) undirbjó afsögn mína og yfirlýsingu um formlegar ávítur á kórstjórann okkar.

En áfallið varði ekki lengi. Þrátt fyrir að Esjan væri í okkar huga alfa og ómega allra karlakóra og kynning okkar á láréttum söng sambærilegar mjaðmahreyfingum Elvis Presley á sínum tíma, þá var ekki framhjá því litið að aldur annarra kóra í myndbandinu var oftast nær talin í áratugum. Karlakórinn Heimir líklega þeirra elstur (starfað óslitið síðan 1927) og Bartónar sennilega yngstur (frá haustdögum 2010).

Á þeim tíma sem myndbandið var tekið upp var starfsaldur Esjunnar ennþá talinn í dögum. Já, líklega eru ennþá 2-3 Mottumarsar í að við verðum gjaldgengnir. Svo hjálpaði það nú óneitanlega til að kollegarnir í Fóstbræðrum og Karlakór Reykjavíkur voru báðir fjarri góðu gamni. Þó báðir þessir kórar geti nú huggað sig við það að hafa fengið að taka þátt í Skálmaldar verkefninu.

Eftir að hafa ákveðið að ekki væri ástæða að gráta Björn bónda mikið lengur, var það næsta í stöðunni  að berjast. Kári kórstjóri var dressaður upp í hlutverk Jakobs Frímanns og síðan var talið í….. Reyndar aðeins oftar en búist hafði verið við. Því eftir að upptökum var lokið, búið var að ganga frá búnaðinum og allir voru orðnir sáttir, kom í ljós að sérfræðingnum Esjunnar hafði láðst að ýta á rec.

Svo aftur var ákveðið að enginn ástæða væri að gráta Björn bónda, græjunum stillt upp aftur, upp með sixpensarann og berjast!

Og útkoman hin ágætasta.

Svo má nú segja að draumurinn hafi orðið að veruleika. Við erum komnir inn á heimasíðu Mottumars. 

 

 

Leave a Reply