Pútín

Standard

Stærsta fréttin í síðustu viku var líklega fréttin af kosningunum á Krímskaga, þar sem íbúar samþykktu nánast einróma að verða hluti af Rússlandi. Alþjóðasamfélagið mótmælti kosningunum harðlega og ein afleiðing þess var að Rússland var rekið úr hópi G8 ríkjanna, sem þar með urðu að G7 ríkjunum.

Forsögu G8, sem er hópur stærstu iðnríkja heims, má rekja aftur til ársins 1975 sem afleiðingu af olíukreppunni sem hófst tveimur árum áður með því samband arabískra olíuríkja ákváðu að hækka olíuverðið á heimsmarkaði umtalsvert. Þá voru ríkin reyndar 6, en var strax árið eftir fjölgað upp í 7 og svo aftur upp í 8 með innlimun Rússlands eftir að Kalda stríðinu lauk.

Einhvern tímann heyrði ég því reyndar fleygt fram að það hafi ráðið miklu af hverju ríkjunum var fjölgað og af hverju G8 eru orðin opnari fyrir iðnríkjum á hliðarlínunni (eins og Brasilíu, Kína  og Indlandi), að staða Bretlands á heimsvísu er ekki jafn sterk og áður og það væri orðið erfiðara að réttlæta veru þeirra í hópi stærstu ríkjanna. En ég sel það nú ekki dýrara en ég ,,ógúgglað” keypti það.

En brotthvarf Rússlands úr hópi G8 ríkjanna er ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að þar með er síðasti þjóðarleiðtoginn sem sæti átti við allsnægtarborðið framan á Live8 disknum mínum nefnilega horfinn af sjónarsviðinu. Tímarnir breytast og mennirnir með og núna er meira að segja komin ein kona.

Live8 tónleikarnir voru haldnir 20 árum eftir að upprunarlegu Live Aid tónleikarnir voru haldnir og á 11 mismunandi stöðum nánast samtímis sumarið 2005. Þeir voru líka tímasettir þannig að þeir hittu á sömu helgi og G8 leiðtogarnir hittust í Skotlandi. Tónleikarnir vöktu gríðarlega athygli og skilaboðin voru skýr. Og hvort sem það var bein eða óbein afleiðins af þeirri umræðu sem skapaðist í kringum tónleikana, þá varð niðurstaðan af G8 fundinum meðal annars sú að skuldir 18 fátækustu ríkja heims voru að miklu felldar niður og þróunarhjálp í Afríku var tvöfölduð frá árinu áður.

En nú eru sem sagt allir leiðtogarnir sem sátu þennan fund að mestu horfnir af hinu pólítíska sjónarsviði, nema Pútín auðvitað, sem lét sig þó hverfa til málamiðlunar eitt kjörtímabil og kom svo aftur til baka.

Hvort honum verði hleypt aftur inn fyrir 30 ára reunionið árið 2015 verður tíminn bara að leiða í ljós. Og hver veit, kannski verður Berlusconi þá aftur kominn að borðinu með honum. Það skyldi þó aldrei vera.

Leave a Reply