Föstudagsfróðleikur – Vertu ekki að plata mig

Standard

Um jólin sagði Ísi mér frá því að hann hefði farið á jólatónleika Baggalúts í Háskólabíó. Eftir tónleikana hefði hópurinn sem hann var í farið yfir á Mánabar og fengið sér einn drykk. Ísi ruglaðist hins vegar. Hann var ekki á Mánabar heldur á Mímisbar á Hótel Sögu. En þá fórum við að hugsa, hvar var Mánabar?

Ég sá hana á horninu á Mánabar, 
Hún minnti mig á Brendu Lee, 
Ég skellti krónu í djúkboxið og hækkaði vel í því. 

Þessar ljóðlínur söng Björgvin Halldórsson í laginu Vertu ekki að plata mig. Og við þurfum ekki meira. Þarna er allt sem þarf til þess að staðsetja okkur í stað og tíma.

Brenda May Tarpley eða Brenda Lee var vinsæl popp/rokkabilly/country söngkona, sem gaf út sína stærstu hittara á árunum 1958 til 1960 (þá 16 ára gömul). Hér er hún árið 1965, þá 21 árs.

Samkvæmt Önundi Páli Ragnarssyni, hagfræðingi á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands væri 1 króna árið 1960 jafnvirði 2.900 – 3.600 króna í dag. Hér verður hins vegar einnig að leiðrétta fyrir myntbreytingunni árið 1980, þegar tvö núll voru klippt af, svo eitt lag í júkboxinu væri að komsta einhverja 30-40 krónur í dag, sem er auðvitað nær lagi, en líklega of ódýrt. En við gefum höfundi texta ákveðinn afslátt, enda hefði verið flókið að syngja ég skellti fjórum krónum í júkboxið og hækkaði vel í því.

#önundurpállragnarssonhagfræðinguráfjármálastöðugleikasviðiseðlabankaíslands.

Hafnfirðingurinn Björgvin Halldórsson er fæddur árið 1951. Og textinn á líklega að fjalla ca. um unglingsárin hans. Ef við segjum svona upp úr 16 ára, þá erum við stödd ca. árið 1967, þegar Brenda Lee er 23 ára. Þetta gengur allt saman ágætlega upp.

Og Mánabar? Hann var þar sem núna er Súfistinn í Hafnarfirði.

BÆNG!

Leave a Reply