Maaatur

Standard

Eftir öll þessi ár á internetinu þá hlaut að koma að því að þetta myndi allt saman borga sig. Það gerði það um daginn. Fyrirtækið Vín og matur hefur undanfarin ár verið með sniðugt kerfi. Þeir velja bloggara til að drekka vínið frá þeim og segja frá reynslunni. Ég hef vitað af þessu systemi núna í þónokkurn tíma og alltaf vonað innst inni að verða valinn. Og loksins ! Það gerðist um daginn. Ég fékk rauðvínsflösku.

Þá var það að finna rétta tækifærið. Hvar og hvenær ætti ég að prufukeyra vínið svo sem mest fengist út úr því? Ég var þarna í frábærri aðstöðu til að slá sem flestar flugur í einu höggi. Krafan úr Hvassaleiti hefur nefnilega sífellt orðið háværari um að þeim verði boðið í mat því það hefur ekki gerst í langan tíma. Þannig að fjölskyldan í Hvassaleiti og amma úr Hafnarfirðinum komu til mín í kvöld. Ég hef reynt að bjóða ömmu upp á eitthvað nýmóðins þegar hún kemur í mat. Hjá henni fæ ég saltkjöt, fisk fisk fisk, slátur og svo auðvitað sunnudagssteikur.

Ég bauð upp á Fahitas !

Einhverjir myndu segja að þetta væri ekki rauðvínsmatur. En þar sem ég get núna sagt að ég sé alinn upp í kreppu þá gilda rökin um að nýta afganga. Og þar sem ég átti grænmeti sem kallaði á notkun sem fyrst þá varð úr að nýta það sem til var í búrinu. Og hvorki Hvassaleitið né amma í Hafnarfirði kvörtuðu. Voru hin ánægðustu.

En þá er það vínið. Ég fékk flösku af Anima Umbra til umfjöllunar (erfitt líf). Og þar sem orðaforðinn minn um gæði víns einskorðast við ,,jú þetta er fínt” þá fengu allir glas. Ég skrifaði hjá mér nokkur stikkorð sem fræðingarnir við borðið sögðu. Ríkulegt í munni, vægt berjabragð, góð fylling, veikur eftirkeimur, mjög gott og ekki þurrt. Uppáhalds dómurinn minn kom frá ömmu. ,,Passar vel með öllu þó kannski ekki soðinni ýsu”.

Já, þar hafið þið það. Mamma, pabbi amma og börnin kunnu vel að meta vínið. Þetta er rauðvín fyrir alla fjölskylduna.

V.S.O.P. gæðastimpillinn verður samt að koma frá mömmu. Hún er með sterkastar skoðanir á rauðvíni. Hvað henni finnst gott og hvað henni finnst ekki gott. Er líkleg til að frussa út úr sér víni sem henni mislíkar. Hún fór ekki frá borðinu fyrr en flaskan var tóm og endaði á hella í glasið hjá sér og ömmu með þeim rökum að annars myndi ég bara hella þessu niður.
Ég kunni vel að meta þetta vín. Það hentaði mér mjög vel. Rökin ekki þurrt er það sem ég leita eftir í rauðvíni svo þessi flaska fer á óskalistann í framtíðinni.

Kvöldið endaði svo á besta mögulega hátt…… Amma gaf mér piparkökur og mamma gaf mér nammikrans.

Gleðileg jól.

11 Comments

  1. Guffi. Þú ert búinn að koma mér í þvílíkt vesen maður. Jóhanna sá myndina af kransinum og heimtar að ég geri svona fyrir hana fyrir jólin :S Þú verður að útbúa ítarlegar leiðbeiningar í skrefum ( svona IKEA leiðbeiningar eins og þú ert svo góður að fara eftir ) og hafa með nákvæmar skýringarmyndir.

    Kv. frá Frakklandi,
    Maggi frændi

  2. Pingback: Vínkeðjan: Guffi og fjölskylda smakka Anima Umbra «

Leave a Reply