Föstudagsfróðleikur – Sólarsamba

Standard

Um liðna helgi var algjör bongóblíða í Reykjavík. Sundlaugar og ísbúðir troðfullar af fólki og það að reyna að finna hamborgarabrauð og gas á grillið á sunnudeginum var gjörsamlega ómögulegt!

En vissuð þið að orðið bongóblíða kom fyrst fyrir í laginu Sólarsamba frá árinu 1988 og er því nýyrði eftir þá Magnús Kjartansson og Halldór Gunnarsson. Þess má til gamans geta að Magrét Gauja dóttir Magnúsar er litla stelpan sem syngur með honum í laginu.

Ég hef lesið þó nokkur viðtöl við Margréti þar sem hún talar um þá erfiðu lífsreynslu sem fylgdi því að vera Magga sólarsamba. Ég veit samt fyrir víst að þetta viðurnefni var sett fram af gríðarlegri virðingu og öfund, alla veganna af þeim sem voru yngri en hún. En allt er gott sem endar vel, því í fyrra las ég viðtal við Margéti Gauju þar sem hún lýsti raunum sínum út af Sólarsamba, en jafnframt að hún hefði nýlega samið frið við lagið og tekið það eftirminnilega í utanlandsferð, syngjandi í sleif.

Myndin hér að ofan er síðan þau feðginin tóku lagið saman á afmælistónleikum Magnús Kjartanssonar síðastliðinn vetur. En við skulum samt enda þetta á orginalnum. Og af gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég tek enga ábyrgð á því að þetta lag taki sér varanlega bólfestu í hausnum á ykkur ;) Ég vek svo sérstaka athygli á því á 22 sekúndu þegar Maggi Kjartans kemst ekki inn á sviðið af því að hljómborðsgítarinn (kítarinn) varnar honum inngöngu. Nokkrum sekúndum síðar hljómar svo orðið bongóblíða í fyrsta skiptið á Íslandi.

Viltu kók?

Standard

Ég sagði ömmu um daginn að það hefði verið að opna sýning á verkum Kjarvals á Kjarlvalsstöðum. Þá sagði hún mér á móti að þegar afi Guðfinnur þurfti að fara suður út af vinnunni hefði hann alltaf búið á Hótel Borg. Kjarval bjó mjög lengi á Borginni og þegar hann vissi af afa í bænum átti hann það til að hringja í hann og spyrja hvort hann vildi kíkja í heimsókn og drekka með sér eina kók í gleri.

Já, tímarnir breytast og mennirnir með. Á meðan afi var í námi fyrir sunnan þá var hann í því að snúast fyrir reksturinn hjá Einari langafa fyrir vestan. Þá skrifaði hann bréf vestur og sagði frá því hvernig gengi í skólanum og í verkunum. Þá sagði hann sögur af innkaupaferðum sínum fyrir langafa þar sem hann sagðist ekki hafa farið í Ellingsen, heldur að hann hefði farið og hitt Ellingsen, enda var Ellingsen á þeim árum maður en ekki verslun.

Annars dettur mér ekkert í hug sem getur jafnast á við það að drekka kók með Kjarval. Eina manneskjan sem er jafn stór og Kjarval í huganum er líklega Björk. En hún bara of alþýðleg, ég gæti alveg trúað henni til að skipta með mér kók. Þannig að ég hallast helst að því að þetta væri eins og ef Egill Ólafsson hefði samband til að biðja mig um að panta pítsu á móti sér í tvennutilboði Dómínós.

tifa tifa tifa

Hæ hó jibbý jei

Standard

Á sunnudaginn fyrir viku labbaði ég meðfram Hudson ánni í New York ásamt Guðbjörtu vinkonu minni. Þar ríkti hjálfgerð þjóðhátíðarstemming enda Memorial day og flotavika. Þar sem ég var ekki alveg með það á hreinu þá spurði ég Guðbjörtu hvort hún myndi af hverju Bandaríkjamenn héldu upp á þjóðhátíðardaginn sinn 4 júlí? Hún staðfesti að það hefði verið vegna þess Bandaríkjamenn hefðu unnið stóra orrustu gegn Bretum og í framhaldi hafi verið skrifað undir sjálfstæðisyfirlýsinguna.

Í gær var þjóðhátíðardagur Dana en þann dag árið 1849 fengu þeir stjórnarskrána sína og urðu formlega konungsríki með þingbundna stjórn.

Í dag halda Svíar upp á sinn þjóðhátíðardag en þennan dag árið 1532 var Gustav Vasa kjörinn konungur sem markaði formlega stofnun Svíþjóðar í þeirri mynd sem er líkust þeirri sem er í dag.

Norðmenn héldu svo upp á þjóðhátíðardaginn hjá sér 17 maí og við Íslendingar mánuði síðar.

Þetta fær mann til að hugsa hversu margir ,,merkilegir” hlutir gerast á sumrin í löndum sem hafa kalda vetur. En ætli þetta sé bara allt ein stór tilviljun? Hefðum við Íslendingar verið jafn spenntir fyrir því að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar ef hann hefði fæðst í nóvember? Árið 1944 vissu menn alveg af gasblöðrunum og kandíflossinu enda var bæði fundið upp á 18 öld. Hefðum við ekki bara fundið aðra ástæðu til að halda upp á þjóðhátíðardaginn okkar að sumri til. ,,Vér mótmælum allir” daginn í júlí eða fullveldisdaginn í ágúst.

Eftir stutta rannsóknarvinnu sýnist mér mynstrið vera augljóst. Köld lönd halda upp á þjóðhátíðardaginn sinn á sumrin. Með einni undantekningu þó. Finnar halda upp á sinn þjóðhátíðardag 6 desember. Og fyrst einhverjir þurftu að gera það, þá kemur ekki á óvart að það skyldu vera þeir.

Já sjómannslíf

Standard

Ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir viku síðan og upplifði meðal annars Memorial Day sem er síðasta helgin í maí. Þá minnast Bandaríkjamenn þeirra sem dóu í þjónustu sinni við landið. Sjóherinn fagnar deginum með því að vera með Fleet week sem þýðir að flestir dátar í sjóhernum eru í landi.

Viku seinna halda Íslendingar upp á sjómannadaginn til þess að heiðra íslenska sjómanninn. Íslensk fyrirtæki birta heilsíðuauglýsingar í blöðunum, fólk mætir á hátíðardagskrá niður á höfn í sínu byggðarlagi og þú finnur ástæðu til að óska ættingjum sem starfa í sjávarútvegi til hamingju með daginn. Þess fyrir utan er það lögbundin skylda fyrir íslensk fiskiskip að vera í landi þennan dag.

Bæði Ísland og Bandaríkin eru með þessu að heiðra þær atvinnustéttir sem hafa áunnið sér virðingu þjóðarinnar, en þarna blasir áherslumunur landanna þó við.

Hjá mér er það orðin hefð að fara í sjómannadagskaffi á Hrafnistu í Hafnarfirði til ömmu. Það er alltaf jafn hátíðlegt að mæta þangað og sjá þessar gömlu hetjur hafsins. Menn og konur sem flest öll störfuðu í íslenskum sjávarútvegi á þeim árum þegar hafið gaf og hafið tók. Á þeim árum sem þetta fólk vann í sjávarútvegi þótti ekkert óeðlilegt ef 15-30 manns færust árlega á hafi úti.

Eftir kaffisopann býður amma okkur alltaf á handverksmarkað íbúa þar sem hægt er að skoða sig um og jafnvel kaupa muni. Fyrir tveimur árum missti ég mig algjörlega í viðskiptunum sem endaði með að Sigrún systir sagði stopp þegar ég var að fara að hlaupa upp í hraðbanka í þriðja sinn til þess að taka út 8 þúsund krónur fyrir líkan af skútu. Ég náði þó að kaupa þessa handmáluðu skóflu sem hefur sómað sér vel út á svölum á sumrin og hitaplatta sem vinnur svo sannarlega sitt verk vel.

Í ár ákvað Sigrún systir að svipta mig fjárræði meðan við löbbuðum í gegnum handverksmarkaðinn. En það var áður en ég hitti Freyju vinkonu mína sem seldi mér skófluna tveimur árum áður. Eftir að ég hafði suðað nógu lengi samþykkti Sigrún María að ég mætti þá kaupa þennan handmálaða bala. Sem mun í vikunni taka sér stöðu út á svölum, fullur af sumarblómum og auðvitað fallega máluðu skófluskafti eftir sama höfund. Þá á maður líka alla línuna.

Skoðanakannanir

Standard

Þessa dagana birtast vikulegar niðurstöður úr skoðanakönnunum á fylgi forsetaframbjóðandanna. Enda ekki skrítið, það eru ekki nema 25 dagar í kosningar.

En niðurstaðan úr óformlegri skoðanakönnun sem ég hef framkvæmt síðustu daga bendir eindregið til þess að ef fólk fær tvo valmöguleika. Annars vegar að finna óvænt þúsund kall í rassvasanum á gallabuxum sem hafa ekki verið notaðar lengi eða þá að vakna um miðja nótt og sjá að þú getur hæglega sofnað aftur og sofið í góða 4-5 tíma í viðbót, að þá velur fólk alltaf að fá að vakna um miðja nótt. Merkilegt nokk.

Föstudagfróðleikur -Teddybear

Standard

Ein allra besta æskuminning sem ég á tengist því að fá Bangsa bestaskinn. Það var ekki svo að mamma og pabbi skyldu gefa mér hann. Ég suðaði og suðaði en hann þótti of dýr. En þá var nú gott að eiga auka afrit af mömmu og Siffý frænka splæsti honum á uppáhalds frænda sinn. Í dag grunar mig að sálfræðingar geti farið að flokka fólk í tvo hópa. Þá sem fengu Bangsa bestaskinn og þá sem fengu ekki Bangsa bestaskinn. Þetta byggi ég á viðbrögðum þeirra sem hafa séð hann sitja makindalega út í horni heima, enda er hann engu minna stofuskraut en lukkubambus.

Einn minn allra besti Facebook vinur er rapparinn Pitbull. Um manninn vissi ég ekki neitt í byrjun árs en fylgist nú samviskusamlega með hverju skrefi hans. Eitt það örfáa sem við Pitbull eigum sameiginlegt er að við báðir fengum Bangsa bestaskinn þegar við vorum litlir.

Enska orðið yfir tuskubangsa er Teddybear. Orðið er skírskotun í 26. forseta Bandaríkjanna Theodore Roosevelt. Hann var mikill veiðimaður og var einhverju sinni á veiðum með ríkisstjóra Mississippi. Einhverjir vilja líka meina að þessi veiðiferð hafi jafnframt verið tilraun til að fá forsetann til að meta landamæri tveggja ríkja.
En aftur að veiðiferðinni, margir höfðu veitt dýr en Roosevelt hafði ekkert veitt. Einhverjir tóku þá upp á því að fanga bjarndýr, rota það, særa og binda við tré og buðu þvínæst forsetanum að skjóta dýrið. Forsetinn neitaði þessu. Sagði að þetta væri ekki í anda veiðanna og bað um að dýrið yrði drepið svo það þyrfti ekki að þjást lengur. Þessi saga af veiðiferðinni og réttvísi forsetans varð síðar ástæða þess að blaðamenn  Washington Post teiknuðu skopmynd af forsetanum í veiðiferðinni. Teddy and the bear.

Einn af þeim sem sáu þessa skopmynd notaði hana sem andagift þegar hann framleiddi fyrsta tuskubangsann sem hann auglýsti sem Teddy’s bear. Tuskubangsinn varð fljótlega mjög vinsæll og síðan þá hafi tuskubangsar verið kallaðir Teddybear.

Og hér er svo myndin sem byrjaði þetta allt saman.

Takk fyrir herra forseti. Án þín hefði ég aldrei fengið Bangsa bestaskinn.

Kongeligt

Standard

I dag er sondag og om sondagen snakker vi kun dansk. Það var ákveðið að koma með danskan föstudagsfróðleik á sunnudegi, sem verður svo sérstaklega viðeigandi eftir fréttir dagsins. Í dag var dóttur Jóakims danaprins og Maríu prinsessu nefnilega gefið nafn. Í Danmörku eins og á Íslandi er það regla að börn verða að hafa fengið nafn innan þriggja (eða sex) mánaða frá fæðingu. Íslendingarnir leysa þessi tímamörk með ítrekunum frá Hagstofunni, en Danirnir hafa allt annað og betra ráð til að ýta á eftir nafngift.

Í Danmörku er það einfaldlega þannig að ef barn hefur ekki fengið nafn innan gefinna tímamarka þá er þeim sjálfkrafa gefið nafnið Frederik eða Margareth.

Við Íslendingar gætum auðvitað tekið upp sambærilegt kerfi. En þar sem Dorrit er ekki hefðbundið íslenskt nafn þá myndum við leysa þetta með því að börn fengju sjálfkrafa nöfnin Jóhanna og Steingrímur. Nei ég segi bara svona….

Teketill

Standard

,,Það er í lagi með mig!” kallaði Kári eftir að hafa dottið í tröppunum heima hjá mömmu og pabba. Teketillinn hennar mömmu var hins vegar ekki jafn heppinn. Hann var ástæðan fyrir öllum látunum sem fylgdu fallinu. Þá var að muna hvar í ósköpunum mamma geymdi aftur sópinn og fægiskófluna? Á þessu heimili hafði ég ekki gengið frá í að verða fimm ár og ekki var ég nú duglegur vinna inn fyrir vasapeningunum á  meðan ég bjó í kjallaranum.

Næstu daga tók við  örvæntingarfull leit að tekatli sambærilegum þeim sem hafði brotnað í hamaganginum á fyrstu hljómsveitaræfingunni í kjallaranum heima hjá mömmu og pabba. Já, það er ekki annað hægt að segja en þetta hafi farið af stað með látum.

Tveimur dögum seinna var ég á hraðferð upp Laugarveginn þegar ég hitti Jónda félaga. Jóndi hefur um áraraðir gefið út blaðið Grapevine og meðal annars gert garðinn frægann sem umboðsmaður Sprengjuhallarainnar. Við heilsuðumst og stoppuðum til að spjalla.

Hvert ertu á leiðinni? spurði Jóndi
Upp í Te og kaffi á Skólavörðustígnum svaraði ég
Já ókey, hvað vantar þar?
Ég þarf að kaupa nýjan teketil fyrir mömmu. Við brutum hennar á hljómsveitaræfingu á sunnudagsmorguninn.

Þarna sá Jóndi greinilega fyrir sé mikið rokk. Hljómsveitaræfing á laugardegi sem ílengdist fram á sunnudagsmorgun og gerði sig líklegan til að gefa mér high five. Með handabandi gaf ég Jónda hins vegar merki um að láta fimmuna síga.

Þetta var sko eftir messu á sunnudeginum, sagði ég.
Og það var organistinn sem braut teketilinn.

Jóndi leit á mig forviða. Áttu vin sem er organisti! Hvað er hann eiginlega gamall?

Jafngamall mér, svaraði ég af bragði. Og það sem meira er þá ertu að tala við einn af tenórunum þremur í Kirkjukór Háteigskirkju, sagði ég skælbrosandi.

Jóndi þagði í smá stund…. Þessi saga byrjaði rosalega vel, en svo klikkaði einhvern veginn allt sem hægt var að klikka.

Ég fann ekki teketilinn í þessari umferð. En allt er gott sem endar vel, nokkrum dögum síðar færði ég mömmu nýjan teketil sem Kári fann eftir langa leit að hinum eina rétta.

Og hvað hljómsveitina varðar, þá höfðum við engu gleymt og ekkert lært á þessari tíu ára pásu. Ef góður Guð-finnur lofar þá höldum við áfram að láta okkur dreyma drauma um frægð og frama. En þó aldrei fyrir utan verndað umhverfi kjallarans í Hvassaleitinu á sunnudagsmorgnum.

Föstudagsfróðleikur – Ég veit þú kemur

Standard

Þau eru ófá eldheit ástarsamböndin sem hafa kviknað í Herjólfsdal á Þjóðhátíð ár hvert undir þessu lagi. Hvort þau hafi lifað af nóttina er hins vegar allt önnur saga. En sagan á bak við lagið er ekki þessi hefðbundna ástarsaga.

Lagið Ég veit þú kemur er eftir Oddgeir Kristjánsson sem var tónlistarkennari í Vestmannaeyjum en textinn er eftir Ása í bæ, þekktan textasmið og aflakóng á staðnum.

Á árunum 1933-1955 sömdu þeir félagarnir nánast öll Þjóðhátíðarlög og texta saman. Árið 1956 lést Oddgeir lang um aldur fram en lög eftir hann héldu samt áfram að vera Þjóðhátíðarlög en þá með nýjum textum. Meðan hann lifði var samstarfið þeirra þannig að Oddgeir samdi lagið og fór með það til Ása vinar síns sem svo samdi textann. Oddgeir var prúður maður á meðan það var meira líf í Ása í bæ, enda á sjónum.

Eitthvert árið var Oddgeir löngu búinn að semja lagið og koma því til Ása, sem hafði hins vegar dregið það úr hófi að semja textann við lagið. Það var farið að styttast í Þjóðhátíð og Oddgeir byrjaður að ókyrrast svo hann gerði sér ferð heim til Ása. Hann var heima hjá sér timbraður þegar Oddgeir kom og hitti hann og var mikið niðri fyrir. Hann væri löngu búinn að skila af sér laginu en Ási væri ekki að standa við sinn part samkomulagsins. Nú væri orðið stutt í Þjóðhátíð og lagið yrði að fara að verða klárt og með þessari framkomu sinni væri Ási að koma óorði á þá báða. Með þessum orðum kvaddi Oddgeir svo Ása.

Ási vissi vel upp á sig sökina og daginn eftir mætti hann heim til Oddgeirs vinar sínast og færði honum þennan texta. Ég ætla að fá að enda þetta á myndbandi sem var tekið núna um páskana fyrir Vestan. Flutningurinn er í höndum mín og ættingja minna í föðurætt. Ef þið lesið textann og hlustið á lagið þá heyrið þið og sjáið að þetta er fyrirgefningarbeiðni.

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

Og þá mun allt verða eins og var
sko áður en þú veist, þú veist.
Og þetta eina sem útaf bar
okkar á milli í friði leyst.

Og seinna, þegar tunglið hefur tölt um langan veg,
þá tölum við um drauminn sem við elskum, þú og ég.

Ég veit þú kemur í kvöld til mín
þótt kveðjan væri stutt í gær.
Ég trúi ekki á orðin þín,
ef annað segja stjörnur tvær.

….Og fyrir fróðleiksfúsa er rétt að taka það fram að hljóðfærið sem Kristinn Gauti frændi tekur sólóið á, heitir Kazoo og er algjörlega ómissandi í öll góð píanópartý.