Ef þú ert mér hjá

Standard

Á leiðinni út í búð áðan stillti ég á lagalistann Roadtrip á iPodnum, smellti á mig hjálminum og hjólaði af stað. Á lagalistanum eru eitthvað um 200 lög sem fá oftar en ekki að rúlla þegar keyrt er á bundnu slitlagi vestur á firði og svo suður aftur.

Ferðalagið út í Nóatún er ekki langt svo það var einungis eitt lag sem fékk að hljóma. Það sem endaði á fóninum (en þó ekki fóninum) var hið hugljúfa lag Ef þú ert mér hjá með Mannakornum. Þetta er lag sem allir þekkja og ég fór áratugi aftur í huganum bara við að heyra það. Ég gat næstum því séð pabba klæða sig í hvíta sokka við jakkafötin.

En í þessum stutta hjólatúr hlustaði ég aldrei þessu vant líka á textann í laginu. Rímið er nú ekki flókið en textinn mjög merkilegur. Sögumaðurinn er ástfanginn og það heyrist strax í fyrsta versi.

Vetur kemur og vetur fer
en alltaf vorar í sálinni á mér
ef aðeins þú ert mér hjá,
þú ert mér hjá, þú ert mér hjá.

Í næsta versi undirstrikar hann ást sína og telur upp þá kosti sem heitkona hans hefur að geyma.

Alltaf ertu svo blíð og góð,
kjútípæjan mín trítilól,
ef aðeins þú ert mér hjá,
þú ert mér hjá,þú ert mér hjá

En það er svo í chorusnum sem söguhetjan okkar sýnir loksins sitt rétta andlit. Riddarinn á hvíta hestinum er ekkert annað en drykkfelldur ofbeldismaður sem á það til að láta sig hverfa svo dögum skiptir. Hann nær samt að halda í konuna með því að segja hversu mikið hann elski hana. Og meðvirknin er orðin slík að þrátt fyrir allt þetta þá segir konan ekki neitt og tekur ekki á vandamálinu öðruvísi en að smæla bara framan í heiminn.

Og þó ég oft í djeilið lendi fyrir vín
þá kemur þú með brosið þitt blítt til mín.
Og sama hvar um heiminn ég hvolfist og fer.
Mitt hjarta verður eftir hjá þér.

Í síðasta versinu undirstrikar skúrkurinn svo firruna með því að sýna að hann er fullkomlega ómeðvitaður um það hvernig hann er að hegða sér og hugsanleg áhrif sem hegðun hans hefur á sambandið.

Syngjum glöð darídúdadæ,
dátt af gleði ég syng og hlæ
ef aðeins þú ert mér hjá,
þú ert mér hjá, þú ert mér hjá

Lagið er frekar stutt í flutningi og satt best að segja vona ég að það sé vegna þess að konan sá loksins hvers kyns var og ákvað að láta sig hverfa áður en lagið kláraðist. En við skulum leyfa Mannakornum að eiga síðasta orðið: Ef þú ert mér hjá.

Föstudagsfróðleikur – sagan á bak við lagið

Standard

Við skulum halda upp á það að nýi biskupinn okkar virðist ætla að styðja réttindabaráttu samkynhneigðra með ríkari hætti en sá núverandi. Hér er því föstudagsfróðleikur um Queen slagarann Good old fashioned lover boy.

Lagið var gefið út árið 1976 og var  samstarfsverkefni þeirra Brian May og Freddie Mercury, en á þessum tíma var Freddie Mercury ekki búinn að opinbera það að hann væri samkynhneigður.

Þess skal getið að Freddie Mercury bjó í mörg ár með konu að nafni Barbara Valentin og í mörg ár var hann opinberlega tvíkynhneigður. Um hana samdi hann meðal annars lagið Love of my life og varð síðar guðfaðir sonar hennar.

En margir telja sig sjá vísbendingar um að lagið Good old fashioned lover boy fjalli um ástarsamband tveggja karlmanna, þó það hafi aldrei verið viðurkennt opinberlega. Einna sterkust er líklega þessi setning í laginu.

Dining at the Ritz we’ll meet at nine precisely
One two three four five six seven eight nine o’ clock
I will pay the bill, you taste the wine

En eins og allir unnendur stefnumóta vita þá er það að smakka vínið og borga fyrir matinn eitthvað sem karlmenn gera.

Kominn tími til

Standard

Það var kominn tími til að kona yrði biskup Íslands.

Og að Bolvíkingur yrði biskup Íslands.

Að ekki sé nú minnst á að einhver sem býr í gamla húsinu okkar yrði biskup Íslands.

En að öllu gamni slepptu þá er það mitt mat að þjóðkirkjan sé í afskaplega góðum höndum. Það var óneitanlega kominn tími til að kona yrði valin í embættið. En algjörlega óháð kyni eða búsetu þá er séra Agnes hæf í verkið af því að hún er afskaplega klár kona, með skoðanir sem hægt er að lifa samkvæmt og talar mannamál. Þetta mun fólk vonandi heyra þegar hún fer að tala meira opinberlega. Fyrir áhugasama mæli ég með viðtalinu við séra Agnes í síðdegisútvarpinu í dag. Þar fannst mér sérstaklega athyglisvert hvernig hún svaraði varðandi Gay Pride gönguna. Bendir til þess að tímarnir séu að breytast.

Og að hugsa sér. Í dag höfum við konu í embætti forsætisráðherra, forseta Alþingis, verðandi biskup er kona og margt bendir til þess að 30 júní nk. kjósi þjóðin sér konu í embætti forseta. Óháð öllu öðru þá er þetta dálítið töff.

Þetta sóknarbarn brosir alla veganna í dag með nýja biskupinn sinn.

Helgin

Standard

Afmælisbarn vikunnar hringdi og bauð mér á ljósmyndasýningu í Þjóðmenningarhúsinu á laugardaginn. Stórmerkileg sýning og ég leyfi mér að mæla með henni fyrir hvern sem er. Þarna eru sýndar ótrúlegar myndir af björgunarafreki við Látrabjarg. Árið 1947 strandaði breski togarinn Doon við Látrabjarg og bændurnir á bæjunum í kring unnu ótrúlegt björgunarafrek og lögðu sjálfa sig í gríðarlega hættu þegar þeir unnu að björgun áhafnarinnar. Ári seinna var ákveðið að sviðsetja atburðarrásina og taka myndir af heimamönnum. En meðan unnið var að sviðsetningunni og myndatökunni barst frétt um annan breskan togara sem var strandaður á svipuðum stað og myndatakan breyttist því óvænt í raunverulega björgunarferð. Sjá nánar hér.
Á sýningunni eru jafnframt mjög fallegar myndir af íslensku landslagi í vetrarbúning og segja sögu af smaladreng sem leggur líf sitt að veði við að bjarga eftirlegukindum úr klóm öræfavetrar meðan aðrir undibúa komu jólahátíðarinnar. Mjög flott framsetning.

Eftir sýninguna bauð amma mér svo á Kaffi París og þar sátu frú María og Guðfinnur og nutu góða veðursins.

Men på söndag gik vi op på bjerget Esja. Jeg, Móa, Halla og Maria og efter var det svømmehallen i Kópavogur. Maria kommer fra Denmark. Det er meget kongeligt at har danske venner. I dag er også söndag og om söndagen snakker vi kun dansk.

Heilt yfir mjög góð helgi. En finnst ykkur samt ekki óþolandi þegar þið kaupið tvo pakka af ísblómum en komist svo að því að þið áttuð tvo pakka af ísblómum í frystinum.

Eða svo vitnað sé í Freddi Mercury og félaga í hljómsveitinni Queen; It’s a hard life. Og svo bresta allir í söng.

Föstudagsfróðleikur – slökkvistöð

Standard

Á Slökkvistöð Ísafjarðar er stór og mikill turn en tilgangurinn með honum er fæstum kunnur.

Staðreyndin er sú að turninn stendur þarna sem minnisvarði um breytta tíma. Leyfar frá því þegar slöngurnar voru ekki úr plasti heldur úr einhvers konar tau efni. Eftir að hafa verið notaðar tók langan tíma fyrir slöngurnar að þorna aftur. Og þá voru þær hífðar upp í turninn til þerris.

Sunnudagur

Standard

Í gær var svokallaður súper sunnudagur.

Dagurinn byrjaði stundvíslega klukkan hálf níu um morguninn á því að bursta tennur og skó, strauja skyrtu og festa á sig bindi. Nú skildi taka sér stöðu sem einn af tenórunum þremur í kirkjukór Háteigskirkju og syngja yfir fermingarbörnum sunnudagsins.

Vilt þú fermingarbarn leitast við að hafa Jesús Krist að leiðtoga lífsins? Já, þetta fermir sig ekki sjálft.

Verkefni kvöldsins var svo að skella sér í stúdíó og taka upp Toy story slagarann; You got a friend in me

Upptökur gengu vonum framar og afraksturinn verðu auglýstur síðar.

Niðurstaða dagsins. Sindri og Kári eru þvílíkir fagmenn þegar kemur að tökkunum sem þeir stýra.

Afskaplega skemmtilegur dagur. En ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera að leka niður af þreytu þennan mánudaginn. Og Guð-finnur sagði; leyfið börnunum að koma til mín.

9 apríl 2012

Standard

Fjölskyldan tók auka dag eftir páskana og keyrði síðan suður í gær. Færðin á mánudeginum var heldur ekki upp á marga fiska (og talandi um fiska þá voru flestir bátar líka bundnir við bryggju). Ófært með flugi og þungfært með bíl. Frændfólkið sem lagði af stað á mánudeginum var 9 tíma á leiðinni suður. Samanborið við 5 klukkutíma hjá okkur í gær. Þau lentu reyndar í öllu sem hægt var að lenda.

Annars er síðasti dagurinn í svona ferðalagi ansi ómerkilegur. Hann fer í það að þrífa, pakka og ganga frá. Svo ekki sé nú minnst á aksturinn. Þannig má með réttu segja að að fimm daga frí sé í raun og veru bara fjórir dagar. Það nýtur sín enginn síðasta daginn. Ég líkti þessu við arabíska vorið og síðasta daginn sem Muamar Gaddafi var við völd. Jú jú hann var tæknilega ennþá til staðar. En hann naut sín ekkert. Bæði hann og aðrir vissu í hvað stefndu og bráðum væri þessu lokið.

Og talandi um vorið. Á sama tíma og ég las stöðufærslur um útihlaup og grillveislum í Reykjavík var staðan þessi í Bolungarvík. Ykkur er því boðið í stutta ökuferð um bæinn, sem endar á heimili fjölskyldunnar út á Bökkum.

Þetta er það sem er að?

Standard

Fyrir


Eftir

Ókey, þetta er það sem er að í heiminum í dag.

Bensínið er orðið svo dýrt, að maður hefur ekki lengur efni á hvítvíni með sushi-inu.

Vestræni bómullinn byrjaður að gefa sig. Á meðan vandamálin eru af þessum meiði, þá steinheldur maður kjafti, hættir að kvarta, leggur glaður sitt af mörkum til samneyslunnar og helst eitthvað auka með.